Hluti landeigenda í Seljaneslandi bíður nú átekta á meðan mál þeirra eru í flýtimeðferð hjá stjórnsýslunni. Guðmundur Arngrímsson, talsmaður landeigenda á Seljanesi, kveðst í samtali við Fréttablaðið vera tilbúinn að mæta þeim verktökum sem ætli inn á landið í leyfisleysi. „Við ætlum okkur ekki að fara í neitt orðaskak við þá, við munum bara tjá þeim að inn á Seljaneslandið fari þeir ekki með þessi tæki án heimildar, það er alveg á hreinu.“

Fólk er á staðnum til að fylgist með veginum og upplýsir Guðmund um framvindu mála. „Ég er líka í sambandi við eftirlitsmanninn og veit hvar verktakarnir eru staddir út frá heimildum þeirra sem eru á svæðinu.“

Guðmundur ætlaði norður í dag eftir að grafa verktaka var skilin eftir við landamerki Seljaness í lok vinnudags í gær þrátt fyrir að eiga eftir um 700 metra leið að landinu. Túlkuðu Seljanesmenn þetta sem ákveðna ögrun. „Ég frétti síðan að þeir hefðu snúið gröfunni við í morgun og ætla að sitja þetta aðeins af mér,“ segir Guðmundur.

Miðað við framkvæmdarhraðan telur hann þó að vegavinnan komi að landamörkunum á allra næstu dögum. „Jafnvel á morgun eða hinn, þá þurfa þeir að hefja framkvæmdir í Seljaneslandi til að geta haldið áfram vinnunni.“

Beita öllum löglegum leiðum

Komi til þess séu menn tilbúnir að beita öllum löglegum leiðum til að koma í veg fyrir það að sögn Guðmundar. „Við erum að vinna í því upp á hvern einasta dag, enda hafa þeir enga heimild til að vinna með þessum hætti inni á landi Seljanes.“

Hluti landeigenda að Seljanesi heldur því nú fram að Vegagerðin hafi ekki heimild til að leyfa framkvæmdir á veginum og hafa fengið álit lögfræðinga til að staðfesta það. „Lögfræðiálit okkar tekur allan vafa frá því að Vegagerðin starfi innan síns heimildaramma,“ segir Guðmundur og bætir við að rétturinn sé alfarið Seljanesmanna-megin.

Hér má sjá gröfuna við landamörk Seljaneslands.

Eign ríkisins vegna fjárheimilda

Héraðsdómur féllst fyrir helgi á flýtimeðferð í dómsmáli sem eigendurnir hafa höfðað gegn VesturVerki og Árneshreppi. Landeigendur í Seljanesi fara fram á að leyfi VesturVerks fyrir framkvæmdum sínum á Ófeigsfjarðarheiði vegna Hvalárvirkjunnar verði ógilt.

Vegagerðin telur sig hins vegar hafa fulla heimild til framkvæmda. Stofnunin segir veginn vera þjóðveg þar sem hún hafi veitt 2,4 milljónir af fjárheimildum sínum í lagfæringar á veginum á árunum 2003-2004.

Fá ekki inngögnu á svæðið

Að sögn Guðmundar ætlar VesturVerk ekki að bíða eftir niðurstöðu dómsmálsins með að hefja framkvæmdir. Því sé vegurinn nú undir eftirliti. „Ef að verktakinn HS orka og VesturVerk, sem eru leyfishafar, ætla sér að fara inn á land Seljanes þá komum við í veg fyrir það, með einum eða öðrum hætti.“