Lýst hefur verið yfir ó­vissu­stigi á norðan­verðum Vest­fjörðum vegna aukinni snjó­flóða­hættu. Hlyn­ur Haf­berg Snorra­­son, yf­ir­lög­­reglu­þjónn hjá lög­regl­unni á Vest­fjörðum, segir veður­stofuna og snjó­flóða­vaktina beina at­hygli sinni sér­stak­lega að þremur fyrir­tækjum sem fylgst er vel með.

„Þetta eru í rauninni ekki mörg hús í dag þar sem gerðar hafa verið ráð­stafanir með varnar­mann­virki og byggðir voru fluttar og annað slíkt. Það verður sér­stakt eftir­lit með Sorp­mót­tökunni Funa í Skutuls­firði og gerðar voru ráð­stafanir þar í morgun sam­kvæmt ráð­leggingum veður­stofunnar. Mót­takan er því lokuð og engin starf­semi þar. Það er snjó­flóða­vörn fyrir ofan húsið sjálft þannig að það er alveg öruggt að vera inni í húsinu og fyrir neðan snjó­flóða­mann­virkið en það er ekki eins öruggt að vera sitt­hvoru megin við það. Þess vegna er mót­takan lokuð og þá er enginn sem er að koma þar inn á svæðið,“ segir Hlynur í sam­tali við Frétta­blaðið.

Aðstæður allt aðrar en áður fyrr

Hlynur segir einnig að fylgst verði sér­stak­lega vel með Hamp­iðjunni og Sorp­flokkunnar­stöðinni Terra sem stað­sett eru fyrir innan byggðina á eyrinni.

„Þar er verið að fylgjast með og meta að­stæður en í morgun var ekki talin á­stæða til þess að rýma þau hús­næði svo það er enn starf­semi þar. Það eru ekki önnur hús sem þarf að rýma eða að gera ráð­stafanir með eins og staðan er núna,“ segir hann.

Hlynur segir að­stæður gagn­vart snjó­flóðum engan vegin þær sömu og fyrir nokkrum árum síðan þegar mörg hús voru ó­varin.

„Þetta er búið að breytast mikið í dag. Í Bolungar­vík var nokkrum húsum kippt upp og þar var líka settur upp stór snjó­flóða­varnar­garður. Í Súða­vík var byggðin færð og settur upp varnar­garður, síðan var settur varnar­garður hérna fyrir ofan Holta­hverfið í Skutuls­firði og fyrir ofan byggðina hérna á eyrinni. Þannig að þetta eru allt aðrar að­stæður heldur en áður,“ segir Hlynur og bætir því við að ó­þarfi sé fyrir fólk að vera ótta­slegið.

Þá minnir Hlynur á að lokað sé á milli Súða­víkur, Ísa­fjarðar og Flat­eyrar vegna aukinnar snjó­flóða­hættu.