Stuðningsmenn Filippeyska forsetans Rodrigo Duterte á Íslandi mættu á Austurvöll í dag klukkan 17 til að sýna honum stuðning í verki. Að sögn viðstaddra voru allt að 20 manns á svæðinu. Hópurinn er að funda með Birgi Þórarinssyni þingmanni Miðflokksins að svo stöddu.

Hópurinn kallar sig DU30 Iceland á Íslandi og hafa miklar umræður skapast á Facebook hópnum um nýfallin úrskurð mannréttindadómsstólsins og umfjöllun fjölmiðla í kjölfarið.

Meðlimir hópsins hafa farið grófum orðum um Íslendinga af Filippeyskum ættum á Facebook hópnum sem hafa tjáð sig um Duterte í fjölmiðlum, þá sérstaklega um Donnu Cruz og Lilju Védísi Hólmsdóttur.

Donna Cruz samfélagsmiðlastjarna og fyrrum meðlimur Áttunnar ræddi við Fréttablaðið um ferð sína til Filippseyja. Donna er uppalin á Íslandi og eru foreldrar hennar frá Filippseyjum.

„Það virðist vera þannig að því minna upplýsingaflæði, því vinsælli er hann,“ sagði Donna um vinsældir Duterte en meðlimir hópsins DU30 Iceland fóru ófögrum orðum um hana og kölluðu hana góða með sig og ómenntaða hóru á Facebook þræði. Aðilarnir hafa síðan eytt færslum sínum.