Tveir stjórnarflokkanna bæta við sig fylgi en flokkur forsætisráðherra tapar, miðað við nýja fylgiskönnun MMR.

Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn hefur aukist um tæplega tvö prósentustig og mælist nú 24,6 prósent. Framsóknarflokkurinn bætir um betur og fylgið milli kannanna aukist um tæp þrjú prósentustig og er nú 12,5 prósent. Vinstri grænir tapa hins vegar og fylgið mælist um þremur prósentustigum minna, er nú rétt rúmlega 11 prósent.

Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka og stuðning við ríkisstjórn sem gerð var dagana 25. maí - 1. júní síðastliðinn. Síðasta fylgimæling var gerð 11.-20. Maí sl.

Forystufólk ríkisstjórnarinnar sem nýtur minna fylgist en um miðjan maí
Fréttablaðið/Ernir

Stuðningur við ríkisstjórnina mældist rétt rúmlega 50 prósent og minnkaði um tæp þrjú prósentustig frá síðustu könnun, þar sem stuðningur var 53 prósent.

Píratar mælast nú með meira fylgi en tveir ríkisstjórnarflokkanna, VG og Framsókn, með 13,5 prósenta fylgi og bættist í fylgi Pírata um tvö og hálft prósentustig.

Píratar njóta meira fylgis en áður og meira en tveir ríkisstjórnarflokkanna, VG og Framsókn.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fylgi Viðreisnar jókst um rúmt prósentustig og mældist nú 11 prósent. Fylgi Samfylkingar og Miðflokksins dalar hjá hvorum flokki um sig um rúmt prósentustig, Samfylkingin mælist með tæplega 11 prósenta fylgi og Miðflokkurinn með 6,5 prósent.

Flokkur fólksins væri lagt frá því að ná manni inn á þing, mælist með 2,8 prósent og minnkar stuðningurinn um meira en tvo og hálft prósentustig. Flokkurinn fékk tæp 7 prósent atkvæða í síðustu þingkosningum, 2017. Sósíalistaflokkurinn mælist nú með 5,6 prósent, næðu inn á þing en mældust þó áður með meira eða 6,7 prósenta fylgi.

Fylgi flokks Ingu Sæland hefur hrunið að undanförnu
Fréttablaðið/Ernir

Í texta frá MMR segir m.a að sérstaklega áhugavert sé að fylgissveiflurnar sýni á milli hvaða flokka baráttan stendur. Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn sveiflist í gagnstæða átt við fylgi Miðflokksins sem hefur þótt til marks nokkra baráttu milli flokkanna um hylli sömu kjósendanna. Þá segir að slíkar baráttulínur hafi komið í ljós á milli fleiri flokka og til viðbótar við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, megi sjá neikvæða fylgni milli Vinstri grænna og Pírata, Samfylkingar og Sósíalista auk Viðreisnar og Flokks fólksins.

951 einstaklingur svaraði í könnuninni, 18 ára og eldri.

Hér má sjá fylgi flokkanna í maí og júní og frá síðustu Alþingiskosningum
Mynd/MMR