Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn stærsti flokkurinn í nýrri könnun sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið dagana 10 til 15. janúar síðastliðinn. Mælist flokkurinn nú með 19,1 prósent en var með 19,6 prósent í síðustu könnun sem gerð var um miðjan október.

Samfylkingin missir tæp tvö prósentustig frá síðustu könnun en er áfram næststærsti flokkurinn með 16,4 prósent. Píratar koma næstir með 14 prósent og bæta við sig rúmum þremur prósentustigum frá því í október.

Miðflokkurinn er með 11,2 prósent sem er aðeins minna en síðast og Viðreisn missir rúmt prósentustig og mælist með 10 prósent.

Vinstri græn tapa 4,4 prósentustigum milli kannana og eru nú með 8,3 prósent. Hefur fylgi flokksins því helmingast frá kosningunum 2017 þegar Vinstri græn fengu 16,9 prósent atkvæða.

Framsóknarflokkurinn bætir við sig hálfu prósentustigi frá síðustu könnun og er nú með 7,8 prósent. Sósíalistaflokkurinn kemst samkvæmt könnuninni yfir fimm prósenta markið og Flokkur fólksins mælist með 4,9 prósent.

Könnunin var send á könnunarhóp Zenter rannsókna. Í úrtaki voru 2.170 einstaklingar 18 ára og eldri en svarhlutfall var 52 prósent. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.

graf 6.jpg