Fylgi Sjálfstæðisflokksins dregst saman um 3,1 prósentustig milli mánaða samkvæmt nýrri könnun MMR. Það er nú 25,7 prósent en var 28,7 í síðustu könnun. Fylgi Vinstri grænna er næstum óbreytt, nú 13,1 prósent en var 12,9. Framsóknarflokkurinn bætir við sig fylgi og fer úr 10,5 prósentum í 12,6.
Stuðningur við ríkisstjórnina, sem flokkarnir þrír mynda, var 55,1 prósent og minnkar um rúmlega eitt prósentustig milli kannana. Þá mældist stuðningur við hana 56,2 prósent.

Fylgi Pírata eykst, mældist nú 11,3 prósent en var 9,6 prósent í síðustu könnun. Samfylkingin er nú með 10,9 prósent en var 11,3 prósent. Fylgi Viðreisnar mældist nú 10,6 prósent en var 8,8 prósent í síðustu könnun.
Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mældist nú með 5,7 prósenta fylgi og en var með 6,0 prósent í síðustu könnun. Fylgi Miðflokksins er 5,7 prósent og var 5,8 prósent. Fylgi Flokks fólksins mældist nú 3,3 prósent og mældist áður 4,8 prósent. Stuðningur við aðra flokka mældist samanlagt 1,2 prósent.
Könnun fór fram dagana 7. til 12. maí og tóku 953 þátt í henni.