Samfylkingin sækir mjög í sig veðrið samkvæmt nýrri könnun sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið og fréttablaðið.is. Mælist flokkurinn nú með 18,5 prósenta fylgi, aðeins rúmu prósentustigi á eftir Sjálfstæðisflokknum sem er áfram stærsti flokkurinn með 19,6 prósent.

Samfylkingin bætir við sig 4,6 prósentustigum frá síðustu könnun Zenter sem gerð var í september. Sjálfstæðisflokkurinn tapar tæpum tveimur prósentustigum milli kannanna. Fylgi flokksins hefur verið á niðurleið frá kosningunum 2017 þegar hann fékk 25,3 prósent atkvæða.

Grafík/Fréttablaðið

Mjótt á mununum

Sem fyrr er mjótt á munum milli Vinstri grænna, Miðflokksins, Viðreisnar og Pírata. Vinstri græn mælast nú með 12,7 prósent sem er örlítið minna en í síðustu könnun. Miðflokkurinn og Viðreisn tapa um einu prósentustigi milli kannana. Miðflokkurinn mælist nú með 11,6 prósent en Viðreisn 11,3 prósent. Píratar eru með 10,9 prósent og tapa hálfu prósentustigi.

Framsóknarflokkurinn bætir rúmu prósentustigi við sig og mælist nú með 7,3 prósent. Fylgi Flokks fólksins helst óbreytt, eða fjögur prósent, og þá segjast 2,9 prósent ætla að kjósa Sósíalistaflokkinn. Fimm prósent atkvæða þarf til að flokkur fái uppbótarþingmenn.

Ríkisstjórnarflokkarnir þrír mælast nú samtals með 39,6 prósenta fylgi. Í kosningunum 2017 fengu flokkarnir samtals 52,9 prósent atkvæða.

Athygli vekur að aðeins rúm 70 prósent aðspurðra svöruðu spurningunni um hvaða flokk fólk myndi kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag.

Tveir flokkar skera sig úr þegar svör eru greind eftir kyni. Vinstri græn njóta stuðnings 20,9 prósenta kvenna en einungis 6,1 prósents karla. Hjá Miðflokknum snýst dæmið við því 15,6 prósent karla styðja flokkinn en 6,7 prósent kvenna. Ekki mælist marktækur munur á stuðningi eftir kyni hjá öðrum flokkum.

Könnunin var gerð á tímabilinu 10.-14. október síðastliðinn en hún var send á könnunarhóp Zenter rannsókna. Í úrtaki voru 2.300 einstaklingar 18 ára og eldri en svarhlutfall var 53 prósent. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.