Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, segir að ekkert samkomulag hafi orðið um áherslubreytingar í rekstri heilbrigðiskerfisins.

„Sterkt opinbert heilbrigðiskerfi hefur verið kjarni íslenskrar heilbrigðisþjónustu allar götur. Ekkert er að finna í stjórnarsáttmála um að það kunni að vera til endurskoðunar,“ segir Svandís.

Ummæli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að ríkið eigi að einbeita sér að þjóðarspítalanum hafa vakið athygli. Rúm sé fyrir meiri einkarekstur, enda sagan góð af auknu samstarfi opinberra og einkaaðila.

Svandís minnir á mikilvægi þess að stefnumörkun sé fylgt.

„Fjöldi samninga er gerður við veitendur heilbrigðisþjónustu í samræmi við lög um Sjúkratryggingar Íslands. Mikilvægt er að sú þjónusta sé í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda í málaflokknum og fjárlög á hverjum tíma,“ segir Svandís. Þá segir hún að einstakar ákvarðanir séu á borði heilbrigðisráðherra.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra og Framsóknarmaður, segir áherslumun milli flokkanna í þessum efnum. Einhugur sé þó um að efla samvinnu aðila óháð rekstrarformi. „Það þarf að nýta alla krafta, þekkingu og færni. Það kallar á aukna samvinnu og það gerist með samningum við þjónustuveitendur, óháð rekstrarformi. Samhliða því þarf að styrkja og efla sjúkrahúsin og heilbrigðisstofnanir um allt land,“ segir Willum Þór.

Varðandi agnúana á núverandi kerfi, svo sem vistunarmál, ofurálag á suma starfsmenn og biðlista, segir Willum að heilbrigðisstarfsmenn séu takmörkuð auðlind. Aukin samvinna allra þjónustuveitenda nýti betur mannauðinn og gerir öllum kleift að sinna betur þjónustuhlutverki sínu.

„Þannig verður einstaklingurinn í forgrunni.“