Viktor Gísli Hall­gríms­son var maður leiksins í sögu­legum sigri Ís­lands gegn Frakk­landi í gær. Ís­lenska þjóðin fylgdist með Viktori verja sam­tals 15 skot er ís­lenska hand­bolta­lands­liðið steig stórt skref í átt að sæti í undan­úr­slitunum með átta marka sigri á Ólympíu­meisturunum.

For­eldrar Viktors, Hall­grímur Jónas­son og Ágústa Hrönn Gísla­dóttir, voru í skýjunum með frammi­stöðu drengsins en þau horfðu á leikinn heima þar sem Hall­grímur er í ein­angrun.
„Ég er í ein­angrun eftir að ég kom heim eftir riðla­keppnina. Þá greindist ég með Co­vid eins og ó­fáir,“ segir Hall­grímur og hlær létt en stuðningsmenn sem og leikmenn hafa verið að smitast á EM um þessar mundir.

„Ég var ekki að trúa því sem ég var að horfa á“

Hall­grímur segir í hrein­skilni að hann hafi ekki búist við miklu af leiknum í gær eða alla­vega ekki átta marka sigri. „Ég bjóst smá við því að þetta yrði eins og á móti Dönunum, að þeir myndu gera það sem þeir gátu. Svo spilaðist þessi leikur náttúru­lega bara alveg ó­trú­lega,“ segir Hall­grímur.

„Ég bara hálf frosinn hérna í sófanum. Ég var ekki að trúa því sem ég var að horfa á,“ bætir hann við.

Viktor Gísli og fjölskylda á góðum degi.
Ljósmynd/aðsend

Hálf þjóðin var hökuna í gólfinu yfir frammi­stöðu Gísla. Spurður um hvernig honum leið þegar Viktor Gísli byrjaði að raða inn mark­vörslu, segir Hall­grímur það hafa verið mjög góð til­finning.

„Til­finningin er náttúru­lega alltaf geggjuð. Maður er að reyna að horfa á hann sem mest og fylgjast með honum í Dan­mörku. Hann er búinn að vera svo­lítið á bekknum þar í vetur,“ segir Hall­grímur.

„Það er alltaf öðru­vísi að vera ekki leik­formi. Þetta annað EM mótið hans. Hann var náttúru­lega víta­bani í fyrsta mótinu og var með flest varin víti.“

Fagnaði í góðri fjarlægð í stofunni

Þegar þau hjónin komu til landsins greindist Hall­grímur með covid en Ágústa ekki. Hann hefur því verið í ein­angrun einn frá því að þau komu heim.

„Ég er bara með grímur hérna á heimilinu. Ég er í ein­angrun inn í svefn­her­bergi yfir­leitt en ég kom nú fram og var hérna í góðri fjar­lægð og með grímuna. Þannig við gátum að­eins fagnað saman,“ segir Hall­grímur.

Spurður um hvort það hafi ekki verið erfitt fyrir þau hjónin að fallast ekki faðm eftir frammi­stöðuna hjá drengnum hlær Hall­grímur létt.

„Maður er bara að gefa loft­knús.“

„Ó­trú­lega ein­beittur og al­gjör reglu­maður“

Gamalt við­tal við Viktor Gísla úr Morgun­blaðinu hefur verið á flugi á sam­fé­lags­miðlum síðasta sólar­hringinn þar sem hann er spurður út í því af hverju hann er í marki. Sex ára Viktor Gísli svarar því að það sé ein­fald­lega vegna þess að hann er svo góður í marki.

Spurður um hvort hann hafi séð við­talið segir Hall­grímur já og minnist þess þegar það var tekið upp á Skaga á sínum tíma. Spurður hvort Viktor sé ekki með sama sjálfs­traustið nú og þá svara hann því játandi.

„Já alveg klár­lega. Hann er bara ó­trú­lega ein­beittur og al­gjör reglu­maður. Þegar aðrir fara og fá sér í glas þá tekur hann auka­æfingu,“ segir Hall­grímur að lokum.