Viktor Gísli Hallgrímsson var maður leiksins í sögulegum sigri Íslands gegn Frakklandi í gær. Íslenska þjóðin fylgdist með Viktori verja samtals 15 skot er íslenska handboltalandsliðið steig stórt skref í átt að sæti í undanúrslitunum með átta marka sigri á Ólympíumeisturunum.
Foreldrar Viktors, Hallgrímur Jónasson og Ágústa Hrönn Gísladóttir, voru í skýjunum með frammistöðu drengsins en þau horfðu á leikinn heima þar sem Hallgrímur er í einangrun.
„Ég er í einangrun eftir að ég kom heim eftir riðlakeppnina. Þá greindist ég með Covid eins og ófáir,“ segir Hallgrímur og hlær létt en stuðningsmenn sem og leikmenn hafa verið að smitast á EM um þessar mundir.
„Ég var ekki að trúa því sem ég var að horfa á“
Hallgrímur segir í hreinskilni að hann hafi ekki búist við miklu af leiknum í gær eða allavega ekki átta marka sigri. „Ég bjóst smá við því að þetta yrði eins og á móti Dönunum, að þeir myndu gera það sem þeir gátu. Svo spilaðist þessi leikur náttúrulega bara alveg ótrúlega,“ segir Hallgrímur.
„Ég bara hálf frosinn hérna í sófanum. Ég var ekki að trúa því sem ég var að horfa á,“ bætir hann við.

Hálf þjóðin var hökuna í gólfinu yfir frammistöðu Gísla. Spurður um hvernig honum leið þegar Viktor Gísli byrjaði að raða inn markvörslu, segir Hallgrímur það hafa verið mjög góð tilfinning.
„Tilfinningin er náttúrulega alltaf geggjuð. Maður er að reyna að horfa á hann sem mest og fylgjast með honum í Danmörku. Hann er búinn að vera svolítið á bekknum þar í vetur,“ segir Hallgrímur.
„Það er alltaf öðruvísi að vera ekki leikformi. Þetta annað EM mótið hans. Hann var náttúrulega vítabani í fyrsta mótinu og var með flest varin víti.“
Fagnaði í góðri fjarlægð í stofunni
Þegar þau hjónin komu til landsins greindist Hallgrímur með covid en Ágústa ekki. Hann hefur því verið í einangrun einn frá því að þau komu heim.
„Ég er bara með grímur hérna á heimilinu. Ég er í einangrun inn í svefnherbergi yfirleitt en ég kom nú fram og var hérna í góðri fjarlægð og með grímuna. Þannig við gátum aðeins fagnað saman,“ segir Hallgrímur.
Spurður um hvort það hafi ekki verið erfitt fyrir þau hjónin að fallast ekki faðm eftir frammistöðuna hjá drengnum hlær Hallgrímur létt.
„Maður er bara að gefa loftknús.“
„Ótrúlega einbeittur og algjör reglumaður“
Gamalt viðtal við Viktor Gísla úr Morgunblaðinu hefur verið á flugi á samfélagsmiðlum síðasta sólarhringinn þar sem hann er spurður út í því af hverju hann er í marki. Sex ára Viktor Gísli svarar því að það sé einfaldlega vegna þess að hann er svo góður í marki.
Spurður um hvort hann hafi séð viðtalið segir Hallgrímur já og minnist þess þegar það var tekið upp á Skaga á sínum tíma. Spurður hvort Viktor sé ekki með sama sjálfstraustið nú og þá svara hann því játandi.
„Já alveg klárlega. Hann er bara ótrúlega einbeittur og algjör reglumaður. Þegar aðrir fara og fá sér í glas þá tekur hann aukaæfingu,“ segir Hallgrímur að lokum.
Viktor Gísli #emruv pic.twitter.com/l1jQgaKR0R
— Njörður Sigurðsson (@Njordur) January 22, 2022