Íbúar víða um Spán, þar á meðal í höfuðborginni Madríd, urðu varir við furðulega sjón í dag þegar heitir vindar frá Sahara-eyðimörkinni blésu appelsínugulu ryki yfir himininn og svo úr varð sjón sem minnir einna helst á atriði úr framtíðartryllinum Blade Runner.
Margir Spánverjar uppgötvuðu lag appelsínugulu ryki á götum sínum, húsum og bílum þegar þeir vöknuðu í morgun og skyggni í borgum á borð við Madríd og Granada náði sums staðar ekki lengra en fjóra kílómetra, að sögn spænsku veðurstofunnar.
Yfirvöld í Madríd hafa lýst loftgæðum í höfuðborginni sem „einstaklega óhagstæðum“ og á þeim svæðum er lent hafa verst í rykmenguninni hafa íbúar verið hvattir til að nota andlitsgrímur og forðast að stunda líkamsrækt utandyra.
Mjög slæm rykmengun
Spænska veðurstofan lýsir rykmenguninni frá Sahara sem mjög slæmri þótt óvíst sé hvort þetta sé versta slíka tilfellið sem vitað er um. Búist er við því að mengunin muni halda áfram að aukast næstu daga og gæti náð allt norður til Hollands og norðvesturhluta Þýskalands.
Að sögn veðurstofunnar hafa heitir vindar frá Afríku sem blésu einnig með sér stormi sem orsakaði langþráða rigningu á þurrkasvæðum en gerðu það einnig að verkum að hitastig á sumum stöðum hækkaði upp í 20 gráður.
Í Málaga á suðurströnd Spánar blandaðist rykið saman við rigningu áður en hún féll niður svo úr varð einkar furðuleg úrkoma.
„Það var eins og það væri að rigna drullu. Ég sat í bílnum mínum í morgun og drullunni var bókstaflega að rigna niður,“ sagði háskólaneminn Álvaro López í Málaga.

