Þóra Einars­dóttir segist ekkert hafa heyrt frá Ís­lensku óperunni eftir að hún vann mál í Lands­rétti í lok maí vegna van­goldina launa og samnings­brots við upp­færslu á Brúð­kaupi Fígarós.

Í frétta­til­kynningu til fjöl­miðla í gær segir Steinunn Birna Ragnars­dóttir að óperan hafi þegar greitt bæturnar út og átt frum­kvæði að sam­tali við söngvara um samninga­gerð í fram­tíðinni.

Í tilkynningu Óperunnar segir að stjórn óperunnar hafi á­kveðið að una dómi og að stefnanda og öðrum söngvörum sýningarinnar hafi þegar verið greitt í sam­ræmi við niður­stöðu dómsins.

„Jafn­framt hefur ÍÓ átt frum­kvæði að því að bjóða full­trúum söngvara til sam­tals um hvernig nálgun í samninga­gerð við söngvara verði best komið í fram­tíðinni, svo ekki verði til­efni til ó­vissu né á­greinings,“ segir einnig í til­kynningu Ís­lensku óperunnar og tekið fram að mikil­vægt sé að óperan og söngvarar snúi bökum saman um bestu nálgunina við samninga­gerðina.

„Vonast stjórnin til þess að við­ræðurnar skili far­sælli niður­stöðu og sam­komu­lagi um ráðningar­mál söngvara sem báðir aðilar geti verið sáttir við og byggt sam­eigin­lega á til fram­tíðar.“

Segist hvorki hafa heyrt í óperunni né fengið greitt

„Ég hef ekkert heyrt frá ÍÓ, hvorki frá stjórn né óperu­stjóra og engar greiðslur hafa borist til mín nú rúmum sólar­hring eftir að þessi til­kynning birtist.“

„Ég hef ekkert heyrt frá ÍÓ, hvorki frá stjórn né óperu­stjóra og engar greiðslur hafa borist til mín nú rúmum sólar­hring eftir að þessi til­kynning birtist þar sem full­yrt er að stefnanda hafi þegar verið greitt. Sömu­leiðis er mér ekki kunnugt um að það sé vilji til sam­tals um að breyta kjara­samningum okkar enda eru þeir skýrir og bjóða ekki upp á til­efni til „ó­vissu né á­greinings“ sé farið eftir þeim.“ Þetta segir Þóra á Face­book síðu sinni.

Lands­réttur féllst á allar kröfur Þóru nema eina, sem varðar dráttar­vexti. Íslensku óperunni var gert að greiða Þóru 638.168 kr. vegna vangoldinna launa og 2.800.000 kr. í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

Þakklát stuðningi samfélagsins

Þóra þakkar þó fyrir þann stuðning sem hún segist hafa fundið fyrir í sam­fé­laginu.

„Hamingju­óskir hafa borist til mín víða að, sér­stak­lega frá tón­listar­fólki en einnig öðru lista­fólki og velunnurum lista í landinu. Ó­kunnugir stoppa mig á götu og óska til hamingju. Ég hef aldrei upp­lifað annað eins og þetta er mér mikils virði eftir þennan erfiða tíma. Takk allir inni­lega fyrir stuðninginn.“

Til­kynning Ís­lensku óperunnar sem barst fjöl­miðlum á föstu­daginn er svo­hljóðandi:

Vegna niður­stöðu Lands­réttar í máli Þóru Einars­dóttur vill stjórn Ís­lensku óperunnar koma eftir­farandi á fram­færi:

Stjórn Ís­lensku óperunnar hefur á­kveðið að una dómi Lands­réttar í málinu og hefur þegar greitt stefnanda og öðrum söngvurum sýningarinnar í sam­ræmi við niður­stöðu dómsins.

Jafn­framt hefur ÍÓ átt frum­kvæði að því að bjóða full­trúum söngvara til sam­tals um hvernig nálgun í samninga­gerð við söngvara verði best komið í fram­tíðinni, svo ekki verði til­efni til ó­vissu né á­greinings.

Stjórnin telur afar mikil­vægt að söngvarar og Ís­lenska óperan snúi nú bökum saman um bestu nálgunina við samninga­gerðina. Vonast stjórnin til þess að við­ræðurnar skili far­sælli niður­stöðu og sam­komu­lagi um ráðningar­mál söngvara sem báðir aðilar geti verið sáttir við og byggt sam­eigin­lega á til fram­tíðar.

Óperan lagði inn á reikning lög­manns Þóru

„Það var lagt inn á fjár­vörslu­reiknings lög­manns hennar eins og beðið var um,“ segir Steinunn Birna Óskars­dóttir, Óperu­stjóri í sam­tali við Frétta­blaðið. Steinunn Birna segir segir lög­menn bæði Óperunnar og Þóru hafa verið í sam­bandi og sam­komu­lag hafa legið fyrir um hvernig gert yrði upp. Óperan hafi svo lagt inn á þann reikning sem lög­maður Þóru hafi gefið upp.

Fréttin var uppfærð eftir að Fréttablaðið náði í Steinunni Birnu Óperustjóra.