Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafa „sleppt að nefna“ mikilvæga ástæðu fyrir komu Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands. Hann biður hann um frekari skýringar á komu varaforsetans til landsins.
„Í viðtali um heimsókn Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna til Íslands, hélt Guðlaugur Þór utanríkisráðherra því fram að tilefni komu hans væri að ræða samstarf á sviði efnahags- og viðskiptamála,“ segir Logi á Facebook-síðu sinni.
Ástæðan sé í raun allt önnur, líkt og Hvíta húsið hafi sjálft greint frá á heimasíðu sinni.
„Hann sleppti aftur á móti að nefna að ástæðan er ekki síður að undirstrika landfræðilegt mikilvægi Íslands á norðurslóðum og aðgerðir NATÓ til að bregðast við auknum umsvifum Rússlands. Þetta kemur fram á heimasíðu Hvíta hússins,“ segir Logi.

Hann tekur jafnframt fram að mörgum hafi brugðið í brún þegar ríkisstjórnin færði 300 milljónir af fyrirhuguðum framlögum til þróunaraðstoðar í viðhald mannvirkja NATÓ á Keflavíkurflugvelli. „Enn frekar þegar í ljós kom að umfang framkvæmda virðist margfalt það sem kynnt var.“
Þá segist Logi hafa þann 23. júlí síðastliðinn óskað eftir því að utanríkisráðherra, eða fulltrúar utanríkisráðuneytisins, komi á fund utanríkismálanefndar til að gera betur grein fyrir fyrirhugaðri uppbyggingu á varnarsvæðinu í Keflavík.
„Ég bað einnig um að gerð verði betri grein fyrir hvaða áform eru um viðveru hermanna þar. Mér hefur ekki borist svar en hef ítrekað beiðni mína og í leiðinni beðið um munnlega skýrslu vegna heimsóknar Pence til landsins.“
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að fyrirhuguð heimsókn Pence verði þann 3. september næstkomandi. Vitnað var í tilkynningu Hvíta hússins þar sem sagði einnig verði farið yfir tækifæri landanna tveggja til að auka viðskipti og fjárfestingar sín á milli.
Færslu Loga má sjá hér fyrir neðan.