Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, upplýsti bæði Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um áhuga Gunnars Braga Sveinssonar á stöðu sendiherra fyrir fáeinum vikum. Um var að ræð óformlegan fund sem Sigmundur Davíð óskaði sérstaklega eftir. 

Frá þessu greinir Guðlaugur Þór á Facebook en tilefnið eru Klaustursupptökurnar þar sem Gunnar Bragi heyrist gefa í skyn að eiga inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum eftir að hafa skipað Geir H. Haarde sem sendiherra, þegar hann gegndi embætti utanríkisráðherra. Bjarni Benediktsson staðfesti í samtali við fjölmiðla í gær að fundurinn hafi átt sér stað. 

Guðlaugur Þór segist engu hafa lofað Gunnari Braga. „Sem fyrrverandi utanríkisráðherra kann Gunnar Bragi að hafa haft væntingar um slíka skipun en það er í það minnsta ekki á grundvelli neinna loforða, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins, og raunar Gunnar Bragi sjálfur, hefur staðfest. Frásagnir í alræmdu samsæti á Klaustri um einhvers konar samkomulag í þessa átt voru mér enda algjörlega framandi, eins og ég hef þegar tjáð mig um,“ skrifar Guðlaugur Þór, og áréttar að eðlilegt sé að ráðherrar hitti þingmenn að máli. 

„Þá er ekki óalgengt að ráðherra fái uppástungur og meðmæli með fólki í stöðu sendiherra.“

Hann bætir við að á þeim tæplega tveimur árum sem hann hefur starfað sem utanríkisráðherra hafi hann ekki skipað neina nýja sendiherra við utanríkisþjónustuna. „. Það stendur ekki til af minni hálfu að gera breytingu þar á í tilefni af framangreindri málaleitan formanns Miðflokksins. Má öllum hlutaðeigandi vera það ljóst.“