Íbúafundur fór fram í gærkvöldi í Varmahlíð vegna aurskriðna sem féllu í bænum í lok júní. Þar komu fram sveitarstjóri, sveitarstjórnarfulltrúar og sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs Skagafjarðar.

Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri sagði aðspurður fyrir fundinn að þar ætti að miðla upplýsingum um þær framkvæmdir sem búið er að gera og það sem verði gert og svara fyrirspurnum. Þá hafi sveitarfélagið beðið um að hættumat verði gert, bæði fyrir Varmahlíð og hluta Sauðárkróks, vegna aurskriðuhættu.

„Jarðfræðingur hefur með rannsókn staðfest að uppsprettur hafa þrýst á veginn og valdið skriðunni,“ segir Sigfús. Íbúar í Varmahlíð, sem báðu um fund, hafa sakað bæjarstjórn um að hafa vitað af hreyfingum í jarðveginum í mánuði án þess að bregðast nægilega við. „Ég held að menn hafi gert það sem menn töldu best, byggt á þeim upplýsingum sem lágu fyrir þá,“ segir Sigfús. „Það var ýmislegt sem kom í ljós eftir að þessi sylla var farin.“ Hafi því verið breytt um hönnun á jarðvegsskiptum fyrir þessa götu.

Sigfús segir að síðan hafi verið boraðar holur til að finna upptök vatnsins og það drenað ofan í lagnakerfið. Þá hafi verið framkvæmd jarðvegsskipti í Norðurbrún og fláa í hlíðinni þar sem syllan féll. Þessum framkvæmdum er þó ekki lokið.

Aðspurður um Sauðárkrók segir Sigfús að bæjarstjórn hafi áhyggjur af ákveðnu svæði þar, ekki síður en í Varmahlíð. Það er undir hinum bröttu Nöfum. „Við teljum að það gætu gerst svipaðir atburðir í framtíðinni,“ segir Sigfús. Beiðni um hættumat hafi þegar verið skilað inn til ráðuneytisins.