Bresk hjón fundust látin á heimili sínu í Írlandi en talið er að þau hafi látist fyrir um átján mánuðum síðan. Lögreglan á Írlandi rannsakar málið en ekki er talið að dauðsföllin hafi borið að með saknæmum hætti.
Hilary Smith var 79 ára og maðurinn hennar Nicholas Smith 81 árs þegar þau létust í lok árs 2020. Lík þeirra fundust á mánudaginn síðastliðinn eftir að nágrannar lýstu yfir áhyggjum yfir afdrif þeirra.
Nicholas fannst í svefnherberginu en Hilary í stofunni. Gluggatjöld voru dregin fyrir og engin ummerki fundust um innbrot eða saknæmt athæfi.
Ekki er enn ljóst hvað olli dauðsföllunum en helstu kenningar eru að þau hafi látist úr kolsýringseitrun eða kórónuveiru. Lögreglan segir þó ekkert staðfest enn.
Óhirtur garður olli áhyggjum
Hjónin voru á eftirlaunum og áttu engin börn, samkvæmt heimildum The Guardian. Nágrannar sögðu parið vera kurteist en að þau vildu helst vera í einrúmi.
Í lok árs 2020 voru hjónin að íhuga að flytja til Frakklands og sögðu fólki frá þeim áformum. Þau borguðu manni fyrir fram til að sjá um lóðina. Samkomutakmarkanir gerðu það sömuleiðis að verkum að fólk kippti sér ekki upp við það að parið skyldi ekki sjást mikið á flakki.
Nágrannar fóru að hafa áhyggjur af því að ekki hafi spurst til hjónanna lengi og óhirt lóðin ýtti undir þær áhyggjur. Þá var bíll hjónanna lagður fyrir framan húsið.
Vísbendingar frá matvörum á heimilinu gáfu til kynna að parið hafi látist í nóvember eða desember árið 2020.