Klukkan tíu hófst fundur verkalýðsfélaganna og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara. Á fundinn voru boðuð Efling, VLFA, VLFG, VR, Framsýn og LÍV.

Félögin funduðu síðast á fimmtudaginn og stóð þá fundur til um klukkan 19 um kvöldið. Ríkissáttasemjari setti fjölmiðlabann á viðræður á fimmtudaginn. Ekki var því hægt að greina frá því hvað fór fram á fundinum. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissáttasemjara stendur fjölmiðlabannið enn og voru því sem dæmi ekki heimilaðar myndatökur innan húsnæðis ríkissáttasemjara þegar forsvarsfólk félaganna kom til fundar í dag. 

Ekki er ljóst hversu langur fundurinn verður í dag. Þó standi á heimasíðu embættisins að honum eigi að ljúka klukkan 16 eru allar líkur á því, samkvæmt upplýsingum frá embættinu, að hann verði lengri. 

Á föstudaginn voru verkföll bæði Eflingar og VR hjá hótelstarfsfólki og hópbifreiðastjórum. Efling greindi frá því eftir verkfallið að tilkynnt hefði verið um töluverðan fjölda verkfallsbrota. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði um helgina að hún telji nauðsynlegt að efla verk­falls­vörslu komi til boðaðra verk­falls­að­gerða í vikunni.

Næstu verkföll eiga að hefjast, náist ekki samningar, á fimmtudaginn og standa í tvo sólarhringa.

Fréttin hefur verið uppfærð klukkan 10:37.