Titringur er innan sveitarstjórnar Norðurþings eftir að félagar í VG og óháðum létu bóka fyrir helgi að þeir lýstu áhyggjum af gangi mála í sveitarstjórn Norðurþings.

Sérstaklega var sett út á forgangsröðun við verkstjórn sveitarstjóra, Kristjáns Þórs Magnússonar, sem sneri nýverið aftur til starfa eftir veikindaleyfi. Sérstakur fundur fór fram í meirihlutanum vegna málsins í fyrradag. Meirihlutann skipa Sjálfstæðisflokkurinn með þrjá fulltrúa, VG með einn fulltrúa og Samfylking með einn fulltrúa.

„Ég hefði kosið hreinskiptnari samskipti með kjörnum fulltrúum og nefndarfólki samstarfsflokks okkar,“ segir Kristján Þór um væringarnar.

Hann segir útspil VG mjög sérstakt. „En það er heldur ekkert nýtt að bakland VG sé ósátt með forystu Sjálfstæðisflokksins.“

Sérstakur fundur fór fram hjá meirihlutanum í gær vegna gagnrýni VG. Sá fundur var að mestu jákvæður að sögn sveitarstjóra. „Ég hef þá trú að við munum klára þetta kjörtímabil með sóma.“

Framsóknarflokkurinn á þrjá menn af fjórum í minnihlutanum í Norðurþingi. Hjálmar Bogi Hafliðason, oddviti Framsóknarmanna, segir að yfirlýsing VG hafi komið Framsóknarmönnum á óvart og hitti þá sjálfa fyrir.

„Ég álít að þessi gagnrýni VG sé gagnrýni þeirra á sig sjálf,“ segir Hjálmar Bogi. „Ef vandamál eru í samstarfi ættu menn að byrja á að ræða þau vandamál innan samstarfsins,“ segir Hjálmar Bogi.