Lögreglan á Akureyri fékk tilkynningu um mögulegt mannshvarf um tvöleitið í dag þegar áhyggjufullur vegfarandi sagði frá því að maður hefði horfið honum sjónum í Glerá við Hlíðarbraut.

Lögreglan og slökkviliðið hófu þá þegar leit að manninum og óskuðu eftir hjálf frá björgunarsveitinni Súlum á Akureyri.

Áhyggjurnar reyndust sem betur fór ástæðulausar því um klukkutíma síðar fannst maðurinn heill á húfi. Sá er útlendingur og hafði verið að æfa sig í klifri í gljúfrunum.

Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi frá sögunni í færslu á Facebook-síðu sinni.