Tómar möppur merktar sem skjöl með viðkvæmum upplýsingum var meðal þess sem Bandaríska alríkislögreglan FBI fann í húsleit sinni hjá fyrrverandi Bandaríkjaforseta, Donald Trump.
Í dag veitti alríkislögreglan upplýsingar um innihald þeirra skjala og kassa sem fundust við húsleitina í Mar-a-Lago, sveitaklúbbi og heimili Trumps. Meðal þess sem var lagt hald á voru dagblöð, tímarit og önnur gögn sem geymd voru vítt og dreift í kössum.
Meðal skjalanna mátti finna tugi mappa sem höfðu verið merktar sem leynileg gögn, en möppurnar reyndust vera tómar.
Alls var lagt hald á 43 tómar möppur sem voru merktar sem leynileg skjöl og 28 tómar möppur sem einnig áttu að innihalda leynileg skjöl. Forsetinn fyrrverandi átti að skila skjölunum eftir lestur, en ekki er gert ráð fyrir því að forsetar taki slík skjöl með sér heim eftir að kjörtímabilinu líkur. Trump hefði því átt að skila öllum skjölum á Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna þegar forsetatíð hans lauk í fyrra.
Greint hefur verið frá því að Trump hafi oft verið beðinn um að skila öllum opinberum gögnum sem hann hafði undir höndunum. Lögmenn hans hafa lengi haldið því fram að enginn slík gögn væru að finna á heimili hans, sem reyndist ósatt.

