Tómar möppur merktar sem skjöl með við­kvæmum upp­lýsingum var meðal þess sem Banda­ríska al­ríkis­lög­reglan FBI fann í hús­leit sinni hjá fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta, Donald Trump.

Í dag veitti al­ríkis­lög­reglan upp­lýsingar um inni­hald þeirra skjala og kassa sem fundust við hús­leitina í Mar-a-Lago, sveita­klúbbi og heimili Trumps. Meðal þess sem var lagt hald á voru dag­blöð, tíma­rit og önnur gögn sem geymd voru vítt og dreift í kössum.

Meðal skjalanna mátti finna tugi mappa sem höfðu verið merktar sem leyni­leg gögn, en möppurnar reyndust vera tómar.

Alls var lagt hald á 43 tómar möppur sem voru merktar sem leyni­leg skjöl og 28 tómar möppur sem einnig áttu að inni­halda leyni­leg skjöl. For­setinn fyrr­verandi átti að skila skjölunum eftir lestur, en ekki er gert ráð fyrir því að for­setar taki slík skjöl með sér heim eftir að kjör­tíma­bilinu líkur. Trump hefði því átt að skila öllum skjölum á Þjóð­skjala­safn Banda­ríkjanna þegar for­seta­tíð hans lauk í fyrra.

Greint hefur verið frá því að Trump hafi oft verið beðinn um að skila öllum opin­berum gögnum sem hann hafði undir höndunum. Lög­menn hans hafa lengi haldið því fram að enginn slík gögn væru að finna á heimili hans, sem reyndist ó­satt.

Mar-a-Lago.
Fréttablaðið/Getty
Alls var lagt hald á 43 tómar möppur sem voru merktar sem leyni­leg skjöl og 28 tómar möppur sem einnig áttu að inni­halda leyni­leg skjöl.
Fréttablaðið/Getty