Karlmaður hlaut á dögunum þrjátíu daga fangelsisdóm, skilorðsbundin til tveggja ára, í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir þjófnaðarbrot í skartgripaverslun í höfuðborginni.

Málið varðar tvö brot, en hann var sýknaður í öðru þeirra.

Í fyrra brotinu, sem átti sér stað í lok nóvember 2020, var manninum gefið að sök að hafa brotið rúðu á skartgripaverslun, og stolið þaðan gullarmspöng, tveimur gullhringjum, perlufesti og tveimur úrum. Söluverðmæti munanna var metið á 560 þúsund krónur.

Maðurinn var handtekinn tveimur vikum eftir brotið og fundust munir á honum sem teknir voru í innbrotinu. Hins vegar var hann sýknaður þar sem ekki þótti sannað að hann hefði verið á vettvangi þegar brotið var framið.

Í seinna brotinu, í byrjun desember sama ár, var honum gefið að sök að hafa brotið tvær rúður á skartgripaverslun og stolið þaðan níu armböndum, átta   hálsmenum, þremur eyrnalokkum, pari af ermahnöppum og  tuttugu og fjórum hringum, söluverðmæti þeirra muna voru 862 þúsund krónur. Hann var sakfelldur fyrir það brot.

Maðurinn mætti ekki fyrir dóm, en hann hafði tvisvar sinnum áður verið dæmdur til refsingar. Líkt og áður segir hlaut hann þrjátíu daga skilorðsbundin dóm.