Göngumenn á fjallinu K2 hafa fundið þriðja líkið á fjallinu að því er segir á vefsíðunni Explorers Web. Þar var greint frá því fyrr í dag að tvö lík hefðu fundist þar. Samkvæmt vefsíðunni eru líkin af John Snorra Sigurjónssyni, Juan Pablo Mohr og Ali Sadpara sem fórust á fjallinu í febrúar. 

Þetta staðfestir Akhbar Syed, framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Lela Peak, við Explorers Web en hann er staddur í grunnbúðum K2. Líkin þrjú fundust fyrir ofan fjórðu búðirnar á fjallinu.

Talið er að líkið sem fannst nú síðast sé af Mohr. Staðfest var að eitt líkanna væri af Sadpara og sagði Garett Madisson, sem fer fyrir gönguhópnum sem fundu líkin, að líklega væri annað þeirra John Snorri. Madison og hópur hans eru á leið upp fjallið og gera ráð fyrir að ná tindi þess á morgun. Þetta er í fyrsta sinn síðan þremenningarnir fórust sem gengið er hærra en þriðju búðirnar á K2.