Lögreglan á Suðurnesjum fann mikið magn fíkniefna við húsleit í Suðurnesjabæ í síðustu viku. Bæði fannst kókaín og kannabis við leitina auk peninga sem taldir eru vera ágóði fíkniefnasölu sem lögreglu grunar að hafi farið fram í húsnæðinu.

Í öðru ótengdu máli fundu lögreglumenn við hefðbundið eftirlit kannabis í bifreið. Í þriðja málinu fundust einnig kannabisefni heima hjá karlmanni sem lögreglan átti erindi við.

Í fyrrinótt var karlmaður í annarlegu ástandi handtekinn. Hann hafði verið að kýla í leigubifreið fyrir utan skemmtistað í Keflavík og hlýddi ekki fyrirmælum lögreglu þegar hún kom á vettvang.

Lögreglan ítrekar í tilkynningu að bannað er að sprengja flugelda frá og með 7. janúar ár hvert. Þar segir að í gær hafi flugeldum verið hent inn í garð hjá íbúa í annað sinn.

Einnig var til þeim tilkynnt um einstakling sem stundaði það að henda flugeldum úr bifreið á ferð. Lögreglan hafði síðar upp á viðkomandi sem viðurkenndi ekki að hafa kastað flugeldunum úr bifreiðinni en sagðist þó ætla að hætta því. Hann var ekki orðinn 18 ára og var því forráðamönnum hans tilkynnt um atvikið.