Köfurunum Ágústi Daníel og Ants Stern brá heldur í brún í gær þegar þeir rákust á rolluhræ við hellaköfun í Vestmannaeyjum.

Hræið fannst í helli sem er á sex metra dýpi og liggur undir Ystaklett í Heimaey. Talið er að dýrið hafi hrapað niður úr bjarginu fyrir ofan þar sem rollur halda sig allt árið um kring.

Að sögn Ágústs virðist það svo hafa skolast með sjávarstraumunum um 40 metra inn í hellinn og endað í rými sem sé fullt af lofti.

„Hræið var mjög illa farið og nær sundraðist við minnstu snertingu.“

Eyrnamerkið var þó enn á sínum stað og eftir nokkur símtöl tókst köfurunum að hafa uppi á Einari Hallgrímssyni, eiganda dýrsins.

Ants Stern við köfunina í gær.
Mynd/Ágúst Daníel

Löng hefð fyrir veru sauðfjár

Einar er hluti af lundaveiðifélagi sem kennt er við Ystaklett og kallar sig frístundarbónda.

„Við erum með rollur þarna saman einhverjir tíu karlar“ og myndar sá hópur veiðifélagið.

Hann segir að löng hefð sé fyrir því að veru sauðfjár á þessum stað og að á hverju ári hrapi á bilinu þrjár til fjórar rollur af þeim 40 til 45 sem séu alla jafna í Ystakletti.

„Mér finnst þetta nú ekki merkilegt, bara rolla sem hrapar í sjóinn og fer þarna inn í sogi og öldu. Ég skil ekkert í þér að vera búa til frétt úr þessu,“ segir Einar í samtali við blaðamann.

Flest hræin reki þó á land í fjöru og ekki beri mikið á því að þau finnist í hellum. Hann skilji því að köfurunum hafi þótt fundurinn áhugaverður.

„Ég hefði ekki viljað vera að kafa í þröngum helli og lenda á rolluhræi þar, það hefði ábyggilega ekkert verið gaman að því.“

Mynd/Ágúst Daníel

Halda göngustígum við

Einar segir að það hafi alltaf verið rollur í Ystakletti þangað til menn hafi hætt að vera þar með sauðfé fyrir nokkrum árum.

„Sumarið sem Eyjafjallajökull gaus þá var sprettan svo svakaleg þarna að við óðum stráin upp í mitti svo við neyddumst til þess að fá okkur rollurnar aftur til að halda göngugötunum okkar við, já eða rollustígunum. Við náttúrulega notum sömu stígana rollurnar og mennirnir.“

Hann segir erfitt að giska á hve langt sé síðan þessi tiltekna rolla féll í sjóinn.

„Ef að þetta er hræ sem er nokkuð heillegt þá er það ekki gamalt. Þetta er kannski ekki búið að vera nema tvo, þrjá mánuði í sjónum.“

Engin áform séu um að sækja hræið en hann ætli að sækja eyrnamerkið til Ágústs á morgun og færa það til bókar.