Heilbrigðisyfirvöld í Queensland í Ástralíu hafa lýst því yfir að fundist hafi nýtt undirafbrigði af Omíkrón afbrigði Covid-19.

Í frétt á vef The Guardian segir að ekki sé um að ræða nýtt afbrigði eða nýjan stofn veirunnar og að nauðsynlegt sé að afla frekari upplýsinga um undirafbrigðið.

Undirafbrigðið sem sagt er það fyrsta í heiminum og kallað er Omíkronlíki eða Omicron „like“ fannst í erlendum ferðamanni sem kom til Queensland frá Suður-Afríku.

Mismunandi gen

Smitsjúkdómalæknirinn og örverufræðingurinn, Peter Collignon, segir að undirafbrigðið verði til vegna mismunandi gena í Omíkron afbrigðinu.

Collignon sagði að nýja undirafbrigðið væri ekki nýtt afbrigði.

„Ég held að það sé ekki hægt að kalla þetta nýtt afbrigði, þetta er undirmengi. Nýtt afbrigði táknar mikla breytingu frá því sem við höfum þegar haft,“ sagði hann.

Omíkron afbrigðið er sagt hafa 30 mismunandi genabreytingar en ómíkronlíkið um það bil fjórtán.

„Það er nóg til að flokkast sem omíkrón en við vitum ekki nóg til að vita hvað það þýðir í samhengi við alvarleika sjúkdómseinkenna eða virkni bóluefna,“ segir Peter Aitken, starfandi yfirlæknir heilbrigðismála í Queensland.

Öll veiruafbrigði ólík

Catherine Bennett, prófesor í faraldsfræði við Deakin háskóla, segir mikilvægt að hafa í huga að öll veiruafbrigði hafi ólík genamengi.

„Öll Delta-afbrigði eru ekki alveg eins,“ segir hún. Áhrif nýs undirafbrigðis Omíkron geti til að mynda verið þau að lengri tíma taki að fá niðurstöðu úr PCR-prófi en vanalega.