Steingervinga­fræðingar í Argentínu hafa fundið nýja risa­eðlutegund með gríðar­stóran búk og stutta framlimi, sem minnir um margt á Grameðlu (T. Rex). CNN greinir frá.

Stein­gervingur þessarar tegundar af risaeðlu, sem hefur nú hlotið heitið Meraxes gigas, fannst við upp­gröft í norður­hluta Pata­góníu­héraðs í Argentínu. Talið er að skepnan hafi verið kjöt­æta, heilir ellefu metrar á hæð og yfir fjögur tonn að þyngd. Enn er ó­ljóst hvort stein­gervingurinn til­heyri karl­dýri eða kven­dýri.

Sam­kvæmt niður­stöðum steingervingafræðinga til­heyrir tegundin Carcharodontosauri­da­e hópi risa­eðla, sem voru uppi á krítar­tímanum fyrir um 145 til 66 milljónum ára.

Fundu heillegan framhandlegg, höfuðkúpu og fót

Flekar af Carcharodontosauri­da­e stein­gervingum hafa fundist við upp­gröft á svæðinu síðustu þrjá­tíu árin eða svo, en að sögn Juan Cana­le, verk­efnis­stjóra Ernesto Bachmann stein­gervinga­safnsins í Neuqu­én í Argentínu, hefur hingað til lítið verið vitað um höfuð­kúpu tegundarinnar, framlimi eða fætur.

Það hafi nú breyst með þessum merkilega fundi, þökk sé því hversu heil­legur stein­gervingurinn er.

„Í fyrsta skipti teljum við okkur vita, í miklum smá­at­riðum, hvernig líkams­bygging þessarar risa­stóru kjöt­ætu var,“ segir Cana­le.

Við uppgröftinn fannst næstum því heill fram­limur sem leiddi rannsakendur að þeirri niður­stöðu að Meraxes gigas hafi hlut­falls­lega verið með mjög litla framlimi, en því líkam­lega ein­kenni deilir þessi nýja tegund með Grameðlunni, sem hefur lengi valdið steingervingafræðingum miklum heila­brotum.

Einnig fannst heilleg höfuð­kúpa og fótur, sem gerði rannsakendum kleift að varpa ljósi á hvernig þessi hópur risa­eðla þróaðist.

Eins og sjá má fannst fjöldi steingervinga sem hjálpaði rannsakendum að fá betri mynd af líkamsbyggingu þessarar risaeðlutegundar.
Mynd/Sjáskot úr skýrslu rannsakenda/Canale et al., 2022

Engin bein tengsl við Grameðluna

Að sögn Cana­le dó Meraxes gigas tegundin út um tuttugu milljón árum áður en Grameðlur réðu lögum og lofum. Og jafnvel þótt báðar tegundir hafi verið með stóran haus og hlut­falls­lega stutta framlimi, var beina­bygging þeirra mjög ólík

„Það er engin bein tenging milli þessara tegunda. For­feður Meraxes gigas höfðu lengri framlimi og minni haus, en framlimir þeirra voru mikil­vægir við veiðar,“ segir Cana­le. Þetta hafi þó breyst eftir því sem tegundin þróaðist.

„Ég tel að at­hafnir sem tengjast fyrir­sáti við veiðar, á borð við að grípa eða halda bráðinni fastri, hafi ekki verið fram­kvæmd með höndunum, heldur með höfðinu,“ segir Cana­le. Þó sýni stein­gervingurinn að framlimirnir hafi verið sterk­byggðir þrátt fyrir að vera stuttir.

„Þetta er ekki í sam­ræmi við út­lim sem gegnir engu hlut­verki,“ segir Cana­le, og bætir við að þeir hefðu mögulega verið notaðir til að hjálpa dýrinu að standa upp eða sem stuðningur við mökun.

Þá hafa rann­sak­endur komist að því að höfuð­kúpa Meraxes gigas var al­sett alls­kyns „skrauti,“ á borð við kamb, hrukkur, ó­jöfnur og lítil horn, og segir Canale að skrautið hafi að öllum líkindum þjónað þeim tilgangi að laða að maka.

Að sögn Cana­le er þó enn margt á huldu þegar kemur að þessari tegund. „Við erum að rann­saka og skrifa um fætur og arma tegundarinnar og eigum enn mikið verk ó­unnið,“ segir Cana­le.