Steingervingafræðingar í Argentínu hafa fundið nýja risaeðlutegund með gríðarstóran búk og stutta framlimi, sem minnir um margt á Grameðlu (T. Rex). CNN greinir frá.
Steingervingur þessarar tegundar af risaeðlu, sem hefur nú hlotið heitið Meraxes gigas, fannst við uppgröft í norðurhluta Patagóníuhéraðs í Argentínu. Talið er að skepnan hafi verið kjötæta, heilir ellefu metrar á hæð og yfir fjögur tonn að þyngd. Enn er óljóst hvort steingervingurinn tilheyri karldýri eða kvendýri.
Samkvæmt niðurstöðum steingervingafræðinga tilheyrir tegundin Carcharodontosauridae hópi risaeðla, sem voru uppi á krítartímanum fyrir um 145 til 66 milljónum ára.
Fundu heillegan framhandlegg, höfuðkúpu og fót
Flekar af Carcharodontosauridae steingervingum hafa fundist við uppgröft á svæðinu síðustu þrjátíu árin eða svo, en að sögn Juan Canale, verkefnisstjóra Ernesto Bachmann steingervingasafnsins í Neuquén í Argentínu, hefur hingað til lítið verið vitað um höfuðkúpu tegundarinnar, framlimi eða fætur.
Það hafi nú breyst með þessum merkilega fundi, þökk sé því hversu heillegur steingervingurinn er.
„Í fyrsta skipti teljum við okkur vita, í miklum smáatriðum, hvernig líkamsbygging þessarar risastóru kjötætu var,“ segir Canale.
Við uppgröftinn fannst næstum því heill framlimur sem leiddi rannsakendur að þeirri niðurstöðu að Meraxes gigas hafi hlutfallslega verið með mjög litla framlimi, en því líkamlega einkenni deilir þessi nýja tegund með Grameðlunni, sem hefur lengi valdið steingervingafræðingum miklum heilabrotum.
Einnig fannst heilleg höfuðkúpa og fótur, sem gerði rannsakendum kleift að varpa ljósi á hvernig þessi hópur risaeðla þróaðist.

Engin bein tengsl við Grameðluna
Að sögn Canale dó Meraxes gigas tegundin út um tuttugu milljón árum áður en Grameðlur réðu lögum og lofum. Og jafnvel þótt báðar tegundir hafi verið með stóran haus og hlutfallslega stutta framlimi, var beinabygging þeirra mjög ólík
„Það er engin bein tenging milli þessara tegunda. Forfeður Meraxes gigas höfðu lengri framlimi og minni haus, en framlimir þeirra voru mikilvægir við veiðar,“ segir Canale. Þetta hafi þó breyst eftir því sem tegundin þróaðist.
„Ég tel að athafnir sem tengjast fyrirsáti við veiðar, á borð við að grípa eða halda bráðinni fastri, hafi ekki verið framkvæmd með höndunum, heldur með höfðinu,“ segir Canale. Þó sýni steingervingurinn að framlimirnir hafi verið sterkbyggðir þrátt fyrir að vera stuttir.
„Þetta er ekki í samræmi við útlim sem gegnir engu hlutverki,“ segir Canale, og bætir við að þeir hefðu mögulega verið notaðir til að hjálpa dýrinu að standa upp eða sem stuðningur við mökun.
Þá hafa rannsakendur komist að því að höfuðkúpa Meraxes gigas var alsett allskyns „skrauti,“ á borð við kamb, hrukkur, ójöfnur og lítil horn, og segir Canale að skrautið hafi að öllum líkindum þjónað þeim tilgangi að laða að maka.
Að sögn Canale er þó enn margt á huldu þegar kemur að þessari tegund. „Við erum að rannsaka og skrifa um fætur og arma tegundarinnar og eigum enn mikið verk óunnið,“ segir Canale.