Rannsóknir vísindamanna við Rockefeller-háskóla í New York í Bandaríkjunum leiddu til uppgötvunar nýrrar tegundar sýklalyfja.

Þetta nýuppgötvaða efnasamband sem fyrirfinnst í jarðvegi hefur hlotið nafnið malacidin. Frekari rannsóknir á efninu hafa leitt í ljós getu þess til að tortíma nokkrum bakteríum sem hafa þróað með sér ónæmi fyrir sýklalyfjum.

Þó langt sé í land með að taka upp malacidin í almennri læknisþjónustu eru tíðindin vægast sagt jákvæð.

Vísindamenn hafa víða leitað að nýjum sýklalyfjum til að berjast gegn útbreiðslu ónæmra baktería, þar á meðal MÓSA-baktería, sem ónæmar eru fyrir hefðbundnum sýklalyfjum.

MÓSA-sýkingar eru sérstakt vandamál komi þær upp á spítölum. Þær geta valdið illviðráðanlegum sýkingum í þvagfærum og lungum.

Sýklalyfjaónæmi er ein mesta heilsufarsógnin sem steðjar að mannkyni og dregur um 700 þúsund manns til dauða á ári hverju.