Birna Dröfn Jónasdóttir
Laugardagur 2. október 2021
15.00 GMT

Daníel Ágúst Haraldsson og Magnús Jónsson voru báðir kallaðir til í tökur á stuttmyndinni Nautn árið 1995, úr verkefninu varð til fjöllistahópurinn GusGus þar sem Daníel Ágúst og Magnús kynntust raftónlist í fyrsta sinn. Leiðir þeirra liggja nú aftur saman í nýju tónlistarverkefni, Dynomatic, og gáfu þeir út lagið Miracle í vikunni.

„Maggi hringdi í mig og sagðist vera með lag sem hann hefði áhuga á að ég syngi með honum og ég sagði náttúrulega að það væri sjálfsagt mál að kanna það og ég tengdi við lagið,“ segir Daníel Ágúst aðspurður um hvernig samstarf þeirra Magnúsar hafi komið til.

„Svo fórum við að kasta fram hugmyndum um það hvernig þetta ætti að vera og unnum þetta saman. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu gaman það var að vinna bara tveir saman að þessu,“ segir Magnús. „Ég hugsaði bara: Djöfull er þetta geggjað. Það kom einhver neisti á milli okkar og samvinnan var ótrúlega skemmtileg,“ bætir hann við.

Magnús og Daníel voru vanir að vinna saman í stærri hópi en þegar GusGus var stofnuð taldi hópurinn um tíu til fimmtán manns. „Þetta var bara eins og fullskipaður handboltaflokkur,“ segir Daníel og hlær.

Þeir Magnús Jónsson og Daníel Ágúst lentu fyrir tilviljun saman í hljómsveit fyrir 26 árum, nú leiða þeir aftur saman sína í Dynomatic.
Fréttablaðið/Ernir

GusGus fyrir tilviljun

„Það verður til allt önnur dýnamík og allt annað andrúmsloft þegar einhver einn kemur með lag og leggur það á borðið og lagið fær einhverja meðhöndlun eins og þetta var í GusGus heldur en þegar þetta er gert svona. Þá myndast einhver samorka sem vantar kannski upp á þegar menn vinna hver í sínu horni,“ segir Daníel og Magnús tekur undir.

„Ég finn oft fyrir því að því fleiri sem koma að hugmynd, því almennari verður hún og ég hef minni áhuga á henni því það er verið að sætta svo mörg sjónarmið og kjarninn fer úr,“ segir hann. „Þess vegna finnst mér gaman að vinna svona náið, það verður til einstök nánd.“

GusGus var stofnuð sem fjöllistahópur árið 1995 og þróaðist þaðan í að verða hljómsveit sem gefið hefur út fjöldann allan af plötum og lögum. Hljómsveitin er ein ástsælasta hljómsveit landsins og eru Magnús og Daníel Ágúst sammála um að þeir hafi lært mikið á veru sinni í hljómsveitinni.

„Við vorum báðir fengnir til að taka þátt í stuttmyndinni Nautn. Arni & Kinski leikstýrðu þeirri mynd og Siggi Kinski var skólafélagi minn í MR og fékk mig til að taka þátt. Ég var enginn leikari eða allavega óreyndur, hafði verið í Herranótt og Stúdentaleikhúsinu og eitthvað svona,“ segir Daníel.


„Ég var enginn leikari eða allavega óreyndur, hafði verið í Herranótt og Stúdentaleikhúsinu og eitthvað svona.“


„Þeir höfðu leikstýrt myndbandi með mér þegar ég var í hljómsveitinni Silfurtónum og þar kynntist ég þeim og við urðum ágætis félagar. Ég var fenginn til að leika í þessari mynd á þeim forsendum,“ segir Magnús sem var þó einnig útskrifaður leikari á þessum tíma.

„Það var fyrir röð tilviljana að við lékum í myndinni, svo út frá því fórum við að gera tónlist,“ segir Daníel. Fyrsta útgáfa fyrstu hljómplötu GusGus varð til árið 1995, ári síðar fékk hljómsveitin samning við breskt plötufyrirtæki.

„Fram að því höfðum við bara gefið út sjálf,“ segir Daníel. „Já, og við bjuggumst eiginlega ekkert við þessu, vorum ekki að pæla í því að við myndum meika það eftir þessa plötu. Ég flutti til L.A. og bjó þar þangað til ég fékk símtal um að við værum komin með samning og skildi eiginlega ekkert í þessu,“ segir Magnús.

Þeir eru sammála um að heiðurinn af plötusamningnum eigi Baldur Stefánsson.

„Hann bara fór og bankaði á dyr í London með gripinn og við vissum ekkert fyrr en samningurinn var kominn, ef ég man rétt. Þessi tími er þó nokkuð þokukenndur hjá mér og frekar langt um liðið og ég man ekki hvernig nákvæmlega þetta bar að,“ segir Magnús.

Leikstjórarnir Arni & Kinski fengu Daníel Ágúst og Magnús til liðs við GusGus.
Mynd/Aðsend

Allt breyttist

Á þessum tíma voru Daníel Ágúst og Magnús tæplega þrítugir og líf þeirra tók miklum breytingum. „Við þurftum aðeins að föndra við plötuna vegna þess að við höfðum stolið nokkrum tónum frá öðrum listamönnum og þurftum að semja um það. Við gáfum eftir höfundarrétt í nokkrum lögum en svo voru nokkur sem ekki samdist um og við þurftum að búa til nýjar útgáfur. Warner Brothers gáfu svo plötuna út árið 1997, svo þetta tók heilt ár,“ útskýrir Daníel.

Þegar platan kom út fór GusGus í tónleikaferð um Bandaríkin og Evrópu. „Svo fórum við til Mexíkó og þetta var stórkostlegt ævintýri og mjög skemmtilegt,“ segir Daníel Ágúst og Magnús er sammála. „Svo eftir aðra plötuna var komin þreyta í suma,“ segir Magnús.

Þeir segja að upp hafi komið listrænn og tónlistarlegur ágreiningur sem sé eðlilegt í svo stórum hópi. „Það var ekkert hægt að ætlast til þess að þessi hópur sem var fenginn til að leika í stuttmynd myndi lifa lengi sem hljómsveit en hún hefur samt gert það með Bigga Veiru sem skipstjóra,“ segir Daníel og vísar til Birgis Þórarinssonar.

„Allir sem komu að þessu í upphafi voru með einhvers konar tónlistarlegan bakgrunn og lög uppi í erminni en okkur langaði að finna einhvern raftónlistarmann til að vinna með og leist best á Bigga Veiru og Magga Legó og þeir voru til í þetta rugl,“ segir Daníel og þeir Magnús hlæja báðir.

Gömlu GusGus-félagarnir: Daníel Ágúst, Stephan Stephensen og Biggi Veira.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Raftónlist var alveg ný fyrir öllum þarna og ég man að þetta var rosalega nýtt fyrir mér, ég var bara svona kumbaya gítarleikari og skildi ekki þennan heim,“ segir Magnús og Daníel tekur undir. „Aðgengileiki þess að gera raftónlist varð miklu meiri á þessum tíma út af tækninni. Það varð miklu auðveldara að forrita, sampla og vinna með tölvu í tengslum við tónlist. Þegar maður var búinn að setja tónlistina í tölvuna gat maður leikið sér svo mikið með hana og möguleikarnir virtust allt í einu endalausir,“ segir hann.

Raftónlistin frelsandi

Þeir segjast báðir semja tónlist að miklu leyti í tölvu sem veiti mikið frelsi í sköpuninni.

„Við gerum báðir mikið af því í dag að semja þannig frekar en að setjast niður með kassagítarinn. Þá setur maður bara fyrsta hamarinn í gang með bassatrommunni og byrjar að vinna hugmyndir út frá því. Flæðið er svo óheft og maður þarf ekki að leggja á minnið einhverja hljóma,“ útskýrir Daníel.

„Allt í einu hefur maður aðgang að mörgum stílum, ég var til dæmis ekki beint að semja í diskó, funk eða house áður en ég fann þennan rafheim. Það er ekki fyrr en eftir að ég þroskast í gegnum GusGus-ferlið og fer að vinna meira með Magga Legó að ég finn mitt jive, ég hefði aldrei kynnst þessu ef ég hefði ekki farið í þessa rannsóknarferð,“ segir Magnús.


„Allt í einu hefur maður aðgang að mörgum stílum, ég var til dæmis ekki beint að semja í diskó, funk eða house áður en ég fann þennan rafheim."


Ekki of gamlir

Daníel og Magnús hafa báðir mestallt sitt líf unnið að tónlist og listsköpun. Þeir eru báðir komnir yfir fimmtugt, Daníel er fæddur árið 1969 og Magnús árið 1965. Þeir segjast ekki upplifa að þeir séu orðnir of gamlir til að halda áfram að skapa og taka þátt í raftónlistarsenunni.

„Mér finnst þetta vera þannig að um leið og ég ákveð að þetta sé komið nóg þá er ég dauður sköpunarlega séð, það er einhvern veginn ekki inni í myndinni að spyrja sig að þessu,“ segir Magnús.

„Lífið er stórskrítið og kemur manni stöðugt á óvart, bara það að fá að lifa því er ákveðið kraftaverk svo maður bara heldur áfram að kanna möguleikana og lifa,“ segir Daníel.

„Ef þú ákveður að vera listamaður þá held ég að það séu ákveðin formerki sem hreinlega fylgja starfinu, þú ert alltaf að þroskast og alltaf að halda áfram. Það er ekki í eðli listamanna að spyrja sig þannig spurninga um hvort maður sé of gamall eða ekki, það er kannski frekar samfélagið sem spyr að því og maður verður bara að ákveða að taka það ekki inn,“ segir Magnús.

Magnús Jónsson á GusGus-árunum.
Mynd/Aðsend

„Það er náttúrulega ákveðin æskudýrkun í poppmenningunni en ég held að hugsunin sé að breytast og fólk hugsi meira um reynsluna og þekkinguna. Ef maður er nógu duglegur að finna nýja fleti á því sem maður er að gera þá kemur alltaf eitthvað sem hefur þann neista sem maður þarf til að þetta sé áhugavert og þess virði að vera eyða tíma fólks í þetta,“ segir Daníel.

Þeir eru sammála um að það séu forréttindi að fá að vinna við það sem veitir þeim ánægju og að starfið sé ekki kvöð. „Annars værum við hættir þessu rugli.“

Þá segjast þeir þakklátir þeim sem hlusta og eru spenntir fyrir 25 ára afmælistónleikum GusGus sem fram fara í Hörpu í desember. „Það verður gaman að hitta alla aftur við þessar kringumstæður,“ segir Magnús.

Daníel Ágúst á tónleikum með GusGus í Hörpu. Hann hefur verið í sveitinni frá því hún var stofnuð árið 1995.
Fréttablaðið/Ernir

Kraftaverk

Nýja lagið, Miracle, sem kom út í vikunni fjallar eins og nafnið gefur til kynna um kraftaverk. „Og um „haltu mér slepptu mér“-þemað sem við þekkjum flest í sambandsmálum og að stundum sé hreinlega ekkert sem bjargi því nema einhver utanaðkomandi kraftur eins og kraftaverk,“ segir Magnús en hann samdi textann við lagið.

Myndbandið við lagið var tekið upp á sólríkum degi síðastliðið sumar og var því leikstýrt af Hrund Atladóttur, sem einnig er kærasta Magnúsar. „Við höfum alltaf verið í góðu listrænu samtali,“ segir Magnús.

Myndbandið er tekið upp með tökuvél sem myndar 360 gráður og Daníel og Magnús héldu sjálfir á vélinni meðan á tökunum stóð. „Hrund sýndi mér þessa tækni og ég er svo gamaldags að ég trúði ekki að þessi tækni væri til,“ segir Magnús og hlær.

Hrund Atladóttir leikstýrði myndbandinu við Miracle sem tekið var upp á góðum sólardegi í sumar.
Mynd/Hrund Atladóttir

Tæknin gefur áhorfendum myndbandsins upplifun ólíka því sem við erum vön og kemur með ferskan sumarblæ inn í komandi vetur. „Þetta er svona funky diskótaktur sem á heima í sólskininu og við vorum mjög heppin með veður á tökudaginn enda búin að liggja yfir veðurspánni í marga, marga daga,“ segir Daníel. „Það var mjög tæpt að finna þennan góða dag,“ bætir Magnús við og vísar í hversu fáir björtu sumardagarnir voru á höfuðborgarsvæðinu.

Myndbandið við lagið er tekið upp á 360° myndavél.
Mynd/Hrund Atladóttir

Hjólaskautafíkill

Í myndbandinu sjást Magnús og Daníel í góðri sumarstemningu og þar sýnir Daníel einnig snilldartakta á hjólaskautum og liggur blaðamanni forvitni á að vita hvort skautað sé af reynslu. „Daníel er með geggjað mojo í þessu myndbandi og þegar við spurðum hann hvort hann kynni á hjólaskauta sagði hann bara: Já, ég var alltaf á hjólaskautum í gamla daga,“ segir Magnús.

„Ég var algjör hjólaskautafíkill,“ segir Daníel og brosir. „Þegar ég var táningur voru sko hjólaskautahallir hingað og þangað um bæinn. Þetta var ótrúlegur heimur og maður komst í ákveðið ástand við að fara hring eftir hring í höllinni við einhverja skemmtilega tónlist, oft diskótónlist eða einhverja danstónlist.“

„Hugarástandið sem maður fór í var algjörlega dáleiðandi og maður sótti svo í þetta, að fara á hverjum einasta degi með skautana sína og spóla þarna hring eftir hring. Maður gat farið með sjálfum sér, þetta var sólósport, en það var hópur af fólki þarna, margt um manninn, ég þurfti ekki að fara með neinum, ég fór bara til að fara í þetta ástand,“ segir Daníel.

Daníel Ágúst sló í gegn á hjólaskautunum í myndbandinu við Miracle.
Mynd/Hrund Atladóttir

Aðspurður hvort hann hafi einnig verið á skautunum segist Magnús ekki eiga séns í Daníel. „Það var ein hjólaskautahöll í Kópavogi og ég fór einhvern tímann í hana en það er alveg ástæða fyrir því að Daníel gerði þetta í myndbandinu en ekki ég,“ segir hann hlæjandi.

Þeir félagar segja framhald eftir Dynomatic ekki ráðið, framtíðin leiði í ljós hvort þeir gefi fleiri lög út saman. Samstarfið hafi gengið vel og þeir njóti þess að vinna saman. „Við höfum alltaf verið góðir vinir og samstarf okkar í GusGus var mjög skemmtilegt,“ segir Daníel og aðspurðir segja þeir aldrei hafa komið upp ágreining þeirra á milli.

„Við vorum bara mesta að hlæja, af því að Maggi er svo óstjórnlega fyndinn. Hnyttinn og skemmtilegur náungi sem er gaman að vera í kringum,“ segir Daníel að lokum.

Athugasemdir