Fullvinnsla á lífrænum úrgangi í moltu í gas- og jarðgerðarstöð Sorpu, GAJA, hefur verið stöðvuð tímabundið eftir að myglugró fundust í límtréseiningum í þaki og burðarvirki. Fram kemur í tilkynningu að myndun myglugróa sé hluti af moltugerðarferli og eðlilegt að mygla finnist við vinnslu.

Líf Magneudóttir stjórnarformaður segir mikilvægt að stöðin starfi hnökralaust. „Öryggi starfsmanna skiptir okkur öllu máli og við vildum tryggja það og tafarlaust stemma stigu við mygluvextinum,“ segir hún.

„Þessi myglugró sem hafa greinst vekja spurningar um hvernig staðið var að hönnun og efnisvali fyrir húsnæði hennar. Við í stjórn Sorpu höfum falið framkvæmdastjóra að leita skýringa sem allra fyrst.“

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir að þetta hafi ekki komið upp í umræðum á borgarstjórnarfundi í þessum mánuði.

„Það átti að bæta vinnubrögðin og upplýsingagjöf eftir Braggamálið. Síðan þá höfum við séð mörg dæmi þar sem vinnubrögðin eru fyrir neðan allar hellur og markvisst reynt að þagga málið niður,“ segir Eyþór.