Við húsleit í vöruhúsi meintra vopnasmyglara á Spáni fann lögregla musteri til heiðurs Adolf Hitler og nasista. Þrír voru handteknir grunaðir um að kaupa vopn frá Austur-Evrópu og selja þau fíkniefnasmyglurum vítt og breitt um álfuna.

Húsleitin fór fram í Andalúsíu á Spáni í lok desember. Einn breskur karlmaður og tveir Þjóðverjar voru handteknir grunaðir um ólöglega vopnasölu, fíkniefnasmygl og skjalafals. Mennirnir eru í haldi lögreglu en ekki liggur fyrir hvort þeir hafi verið ákærðir fyrir meint brot sín.

Alls lagði lögregla hald á 160 skotvopn við húsleitina. Meðal annars mátti finna í vöruhúsinu 22 AK-47 vélbyssur, átta hríðskotabyssur, 121 minni vopn líkt og skammbyssur, átta hljóðdeyfa, tíu þúsund skot af ýmsum gerðum og handsprengju en sum vopnanna voru tilbúin til dreifingar. Auk var lagt hald á fölsuð skotvopnaleyfi.

Hluti af vopnunum sem lögregla lagði hald á.
Mynd/Spænska lögreglan

Einnig var að finna í vöruhúsinu eins konar musteri Adolf Hitler og nasistum til dýrðar, með gínum klæddum í nasistabúninga. Þar mátti einnig finna myndir af Adolf Hitler, hjálma, fágætar orður og merki frá tímum nasista ásamt öðrum skrautmunum tengda þriðja ríkinu.

Lögregla komst á spor mannanna í fyrra eftir að ofbeldisglæpum á Costa del Sol og Campo de Gibraltar-sýslu í Andalúsíu fjölgaði mjög. Þá beindust spjót hennar að þýskum manni sem þóttist vera eftirlaunaþegi og leitaði spænska lögreglan aðstoðar lögregluyfirvalda í heimalandi hans. Þá kom í ljós að maðurinn var eftirlýstur þar vegna vopnafundar í Hannover.

Maðurinn og samverkamenn hans höfðu stundað iðju sína í um þrjú ár, útveguðu sér vopn frá Austur-Evrópu og fluttu til Spánar. Þar fjarlægðu þeir raðnúmer af vopnunum og seldu áfram til fíkniefnasala.