Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur tekið skýrslu af karlmanni sem situr í gæsluvarðhaldi vegna rannsókn á andláti ungrar konu á Akureyri. Fleiri skýrslutökur eru fyrirhugaðar en við handtöku fundust munir sem hann hafði í vörslum sínum en tilheyrðu hinni látnu. Greint var frá því fyrr í dag að taldar séu yfirgnæfandi líkur á því að maðurinn hafi verið heima hjá konunni þegar hún lést. Kallaði hann ekki eftir hjálp og lét sig hverfa þegar föður konunnar bar að garði. 

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur unnið að rannsókn málsins frá því um helgina en í dag fór fram húsleit á dvalarstað mannsins með hans samþykki. Þar var lagt hald á síma og tölvubúnað sem tekinn verður til rannsóknar. 

Lögreglan greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni, en þar kemur jafnframt fram að maðurinn og konan hafi þekkst og höfðu verið í samskiptum kvöldið áður. Réttarkrufning hefur farið fram á hinni látnu og niðurstöðu hennar er beðið. 

Rannsóknin er skammt á veg komin og dánarorsök enn ókunn en talið er að fíkniefni hafi komið við sögu, samkvæmt heimildum blaðsins.