Bein risamörgæsar sem var á stærð við manneskju hafa fundist á Nýja Sjálandi. Steingervingarnir sýna að mörgæsin hefur náð allt að 160 sentímetra hæð og verið um 80 kíló að þyngd.

Mörgæsin var uppi fyrir 66-56 milljónum ára á svokölluðu paleósentímaskeiði. Hin risavaxna mörgæs bætist nú á lista hinna útdauðu, risavöxnu dýra Nýja Sjálands en þar hafa fundist leifar Risapáfagauka, arna, gríðarstórra leðurblakna og fugls sem var 3,6 metrar á hæð.

„Þetta er ein stærsta tegund mörgæsa sem hefur fundist,“ sagði Paul Scofield, safnstjóri Canterbury-safnsins, í samtali við fréttastofu BBC. Mörgæsin hefur haldið sig á suðurhveli jarðar.

Talið er að mörgæsirnar hafi orðið svo stórar vegna þess að risavaxin sjávarskriðdýr hurfu úr höfunum á svipuðum tíma og risaeðlurnar dóu út. „Eftir það, í um 30 milljónir ára, kom tími risamörgæsanna,“ sagði Scofield.

Stærsta mörgæsategundin sem er til í dag, keisaramörgæsin, getur orðið allt að 120 sentímetrar. „Við höldum að á þessu tímaskeiði hafi dýr verið að þróast mjög hratt,“ heldur Scofield áfram. „Vatnshitinn í kringum Nýja Sjáland hentaði fullkomlega á þessum tíma. Hann var í kringum 25 gráður en er nú í kringum 8 gráðurnar.“

Á þeim tíma sem risamörgæsirnar voru uppi á var Nýja Sjáland enn tengt Ástralíu, sem var síðan líklega tengd Suðurskautslandinu. Tegundinni svipar einmitt mjög til annarrar tegundar risamörgæsa sem fannst á Suðurskautslandinu fyrir nokkru.

Ekki er víst hvers vegna risamörgæsirnar dóu út. Helsta kenningin er sú að með tímanum hafi myndast samkeppni í höfunum frá hvölum og selum sem fundust ekki við Nýja Sjáland á blómaskeiði mörgæsanna.