Tveir íbúar á Seltjarnarnesi gagnrýna harðlega umgengni við Gróttu á Seltjarnarnesi þar sem þeir telja sig hafa fundið mannasaur á förnum vegi. Grótta er vinsælt bæði meðal ferðamanna og Íslendinga, enda er um að ræða fallegan útsýnisstað á höfuðborgarsvæðinu. Í hópnum Íbúar á Seltjarnarnesi fara nú fram heitar umræður eftir að tveir íbúar vöktu athygli á slæmri umgengni í Gróttu. 

„Hræðilega“ margir lagt leið sína í Gróttu

Íbúarnir voru á göngu á svæðinu í gær í svokölluðu „foreldrarölti“.

Bendir sá íbúi, sem ritaði færsluna, á að óvenju mikið rusl hafi komið í ljós á svæðinu eftir að snjó leysti og þar á meðal hafi komið mikið magn af hundaskít fram í dagsljósið. 

Í færslunni segir að hljótt og friðsælt hafi verið í bænum á tólfta tímanum í gær, utan mikillar umferðar ferðamanna.

Óvenju mikil umferð ferðamanna hafi verið á svæðinu, bæði á Valhúsarhæð, í Plútó brekkunni og við Valhúsabraut og „hræðilega“ margir hafi lagt leið sína út að Gróttuvita. 

„Í gær á meðan við vorum að keyra til Gróttuvitans sáum við marga túristabila sem leggja hvar sem er upp á gras og skemma umhverfið en það sem þið getið séð á mynd sem er hér fyrir neðan er skítur eftir manneskju, pappír(sennilega notaður til að skeina sér) og fatnaður sem er allur í skít,“ segir í færslunni. Skíturinn fannst á götunni rétt við hringtorgið hjá Gróttu í kring um fólk og bílaumferð. 

Færslan hefur vakið gífurlega athygli og fjöldi hefur lýst yfir skoðun sinni við hana. Þar telja margir að aðgerða sé þörf hvað varðar umgengni á Seltjarnarnesi og einn íbúi leggur til að hlið verði inn að Gróttu þar og greitt verði fyrir aðgang.