Lög­reglu­yfir­völd í Myrt­le Beach í Suður-Karó­línu hafa hand­tekið karl­mann sem grunaður er um að hafa myrt hina 17 ára gömlu Britta­nee Drexel árið 2009. Líkams­leifar hennar fundust í síðustu viku.

Britta­nee sást síðast á gangi á milli tveggja hótela kvöld eitt í apríl 2009. Hún hafði farið til Myrt­le Beach á­samt hópi vina til að skemmta sér en hvarf spor­laust. Fljót­lega vaknaði grunur um að ein­hver hefði numið hana á brott og segist lög­regla nú vita hver var að verki.

Lög­regla hélt blaða­manna­fund vegna málsins í gær og til­kynnti lög­reglu­stjórinn, Car­ter Wea­ver, að 62 ára karl­maður, Raymond Moo­dy að nafni, hefði verið hand­tekinn og kærður fyrir nauðgun, mann­rán og morð. Móðir Britta­nee sagði á blaða­manna­fundi lög­reglu í gær að leitin að Britta­nee væri nú orðin leitin að rétt­læti fyrir hana.

Í fréttum banda­rískra fjöl­miðla kemur fram að Raymond hafi verið hand­tekinn þann 4. maí síðast­liðinn.

Lög­regla vildi ekki veita ná­kvæmar upp­lýsingar um hvað varð til þess að koma henni á sporið í málinu en sagði þó að nýjar upp­lýsingar hefðu komið fram fyrir skemmstu.

Lög­reglu­stjórinn Car­ter Wea­ver sagði að Raymond, sem er dæmdur kyn­ferðis­brota­maður, hefði numið Britta­nee á brott, nauðgað henni og ráðið henni bana áður en hann gróf hana í grunnri gröf í skóg­lendi skammt frá.