Ítalskir forn­leifa­fræðingar upp­götvuðu bein níu Neander­dals­manna í helli 100 kíló­metra suð­austur af Róm. Beinin til­heyra sjö full­orðnum karl­mönnum, einni full­orðinni konu og einum dreng, en vísinda­mennirnir telja að fólkið hafi verið drepin af híenum sem notuðu hellinn fyrir greni. The Guar­dian greinir frá.

Sér­fræðingar telja að Neander­dals­mennirnir hafi lifað á ó­líkum tíma­skeiðum en sum beinin eru talin vera á milli 50 og 68 þúsund ára gömul á meðan þau elstu eru talin vera 100.000 ára gömul.

„Þetta er stór­brotinn fundur. Hellirinn inn­siglaðist vegna grjót­hruns, hugsan­lega jarð­skjálfta, svo hann var lokaður í meira en 60.000 ár og varð­veitti þar af leiðandi líkams­leifarnar í tug­þúsundir ára,“ segir Mario Rol­fo, prófessor í forn­leifa­fræði við Tor Ver­gata há­skólann.

Leifar af græn­meti fundust meðal líkams­leifanna ásamt beinum nas­hyrninga, risa­dá­dýra, villtra hesta og híena.

Vísinda­mennirnir telja að flestir Neander­dals­mannanna hafi verið drepnir og étnir inni í hellinum af híenum sem notuðu hellinn sem greni.

„Neander­dals­menn voru bráð fyrir þessi dýr. Híenur veiddu þá, sér­stak­lega þá sem voru varnar­lausir, veikir eða aldraðir ein­stak­lingar,“ segir Rol­fo.

Vísinda­menn úti­loka þó ekki að á einum tíma­punkti hafi Neander­dals­mennirnir notað hellinn sem bústað, áður en híenurnar tóku hann yfir.

Rol­fo segir að rann­sóknar­teymi hans muni rann­saka erfða­efni Neander­dals­mannanna til að skilja betur líf þeirra og lifnaðar­hætti. Undir­búnings­rann­sóknir á tönnum þeirra gefa í skyn að matar­æði Neander­dals­mannanna hafi verið fjöl­breytt. Þeir nærðust að mestu leyti á korni, sem er talið hafa leitt til stækkunar á heila­búi þeirra.

„Þetta er stór­merki­leg upp­götvun sem mun verða á vit­orði allrar heims­byggðarinnar. Þessi fundur mun hjálpa til við að auka skilning okkar á Neander­dals­mönnum“ segir Dario Franceschini, menningar­mála­ráð­herra Ítalíu.