Marsjeppinn Perseverance hefur fundið lífrænar agnir á plánetunni Mars.

Fram kemur í tilkynningu frá Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, að jarðvegssýni úr Jezero-gígnum gefi til kynna að vatn hafi runnið þar.

Þrátt fyrir að efnið sé lífrænt er það ekki sönnun fyrir því að líf hafi verið á plánetunni, þar sem möguleiki er að agnirnar hafi komið til með öðrum hætti.

Perseverance lenti á Mars í febrúar síðastliðnum. Helsta verkefni leiðangursins er að komast að því hvort líf hafi einhvern tíma verið á plánetunni, með því að safna jarðvegssýnum.

Marsjeppinn hefur tekið sex sýni og á eftir að taka 37 til viðbótar, verða sýnin svo send til jarðarinnar þar sem þau verða rannsökuð betur.