Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu uppgötvaði kannabisræktun í heimahúsi í miðbænum í gærkvöldi og var einn maður handtekinn vegna málsins, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. 

Þá hafði lögreglan í nógu að snúast en töluverður fjöldi ökumanna var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis og þá var karlmaður handtekinn á þriðja tímanum í nótt fyrir að hafa áreitt konur fyrir utan skemmtistað í miðbænum. 

Þá voru fjórir karlmenn handteknir í Kópavogi um tvöleytið í nótt en þeir eru grunaðir um að hafa gert tilraun til þess að brjótast inn í fyrirtæki í Kópavogi.