Á laugardaginn voru tveir innbrotsþjófar handteknir í Kópavogi eftir að tilkynnt var um innbrot í nýbyggingu í bænum. Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að á vettvangi hafi ekki verið að finna margar vísbendingar utan skó- og hjólfara. Það hafi þó verið nóg til að lögreglumennirnir sem sinntu útkallinu hafi komist á spor innbrotsþjófanna. Það leiddi þá að íbúð annars staðar í bænum. Þar fyrir utan var bifreið sem hafði að geyma þýfið sem leitað var að.

Í íbúðinni voru tveir menn, annar á þrítugsaldri og hinn á fimmtugsaldri. Þeir voru báðir handteknir í þágu rannsóknar málsins. Annar þeirra, sem var húsráðandi, var að sögn lögreglu „sakleysið uppmálað“ þegar hann var spurður út í innbrotið og hvort hann hefði eitthvað „misjafnt“ að geyma á heimilinu.

Svör hans reyndust síðan ekki samkvæm sannleikanum því við leit lögreglunnar í íbúðinni fannst talsvert af fíkniefnum.

Við yfirheyrslu á lögreglustöð játuðu báðir mennirnir sök. Að því loknu var hinum stolnu munum komin aftur í réttar hendur en um var að ræða verkfæri að  miklu leyti.

Segir í tilkynningu lögreglunnar að þjófnaðurinn hafi verið „mjög bagalegur“ fyrir eiganda þeirra sem hafi lítið komist áfram í framkvæmdum sínum án þeirra.

„Hér fór því allt vel, ekki síst af þeirri ástæðu að lögreglumennirnir sýndu mikla útsjónarsemi við að upplýsa málið,“ segir að lokum í tilkynningu.