Skoskur ferða­maður virðist hafa látist í há­karla­á­rás undan ströndum frönsku eyjunnar Reunion ná­lægt Madagaskar í Ind­lands­hafi á dögunum og fannst hönd hans og giftingar­hringur inni í maga dýrsins, að því er fram kemur á vef BBC.

Maðurinn sást síðast þar sem hann var að sn­orkla undan ströndum eyjunnar síðustu helgi. Hann var á eyjunni í viku­löngu fríi með eigin­konu sinni. Höndin þekktist á giftingar­hring mannsins og fannst í tígris­há­karli sem veiddur var í rann­sóknar­skyni.

Þegar maðurinn skilaði sér ekki til baka úr sn­orkli þar sem hann var staddur einn í Hermita­ge lóni lét konan hans yfir­völd vita. Haldið var í leit meðal annars á bátum, með leitar­hundum og á þyrlu. Þá voru kafarar jafn­framt sendir á vett­vang en hvorki tangur né tetur fannst af manninum.

Há­karlinn var veiddur á mánu­daginn var af vísinda­mönnum í CSR rann­sóknar­mið­stöðinni. Ekki er vitað að svo stöddu hvort maðurinn hafi drukknað og líkið síðar étið af há­karlinum eða hvort hann hafi orðið fyrir árás dýrsins á meðan hann var á sundi.

Tvær ban­vænar há­karla­á­rásir hafa átt sér stað ná­lægt eyjunni og bönnuðu yfir­völd raunar sund og iðkun vatna­í­þrótta eftir röð á­rása árið 2013. Emmanuel Macron, Frakk­lands­for­seti, sagðist í síðasta mánuði í­huga hvort hann ætti að leyfa iðkun vatna­í­þrótta að nýju fyrir árið 2022 en sagðist vilja vera viss um öryggi sundiðk­enda.