Land­vörður hjá Vatna­jökuls­þjóð­garði fann á göngu sinni í Austur­brekkum Skafta­fells­heiðar svala­fernu, sem væri kannski ekki frá­sögu færandi nema að svala­fernan var frá árinu 1986 og hálf­grafin ofan í mold.

„Fernan var að mestu grafin ofan í mold og stóð blá­endinn upp úr. Það þykir kannski ekki merki­legt að tína upp eina, tóma, svala­fernu, því eins leitt og það er, þá er ruslatínsla enn hluti af reglu­legum verkum land­varða,“ segir á heima­síðu Vatna­jökuls­þjóð­garðar.

„Við nánari skoðun kom í ljós að fernan hafði að öllum líkindum til­heyrt ferð­langi sem var á leið um skógar­stíg Austur­brekkna fyrir 36 árum. „Best fyrir“ dag­setning var frá októ­ber 1986. Litirnir á fernunni voru enn nokkuð skýrir og drykkjar­rörið var alveg heilt,“ segir á heima­síðunni.

Þau segja fundinn vera þarfa á­minningu um á­hrif manna á um­hverfi okkar.

„Vatna­jökuls­þjóð­garður leggur aukna á­herslu á minni plast­notkun í starf­semi sinni þennan septem­ber mánuð, m.a. með því að minna á eftir­farandi hug­tök og að­gerðir þeim tengdum. Allir geta gert eitt­hvað – Saman getum við svo margt!“

Mynd/Hrafnhildur Ævarsdóttir.