Í haust fundust tvö sláturlömb undan sama hrútnum með erfðagalla sem lýsir sér í gulri fitu. Gallinn er ekki sjúkdómur sem slíkur og hefur ekki önnur áhrif en að kjötið verður ólystugt að sjá. Í kjölfarið var hrúturinn, sem var á sæðingastöð, felldur.

„Gallinn lýsir sér í því að skrokkfitan verður áberandi gul. Ég veit ekki til þess að þetta hafi neitt að gera með bragð en áferðin verður óaðlaðandi,“ segir Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. „Þetta hefur verið þekkt í sauðfé hér á landi mjög lengi og er einn af fyrstu erfðagöllunum sem var lýst. En það eru rúmlega tuttugu ár síðan það var síðast grunur um gallann hjá hrút á sæðingastöð.“ Sá hrútur hét Náli 98-870.

Hrúturinn sem nú var grunaður um að hafa gallann hét Muninn með númerið 16-840 og var fæddur á bænum Yzta-Hvammi í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann kom í fyrsta skipti á sæðingastöð á síðasta ári.

Gallinn er víkjandi í erfðum, sem þýðir að bæði hrúturinn og ærin þurfa að hafa hann til þess að lambið hafi gula fitu. „Þess vegna getur gallinn læðst út í stofninn og leynst þar mjög lengi,“ segir Eyþór.

Eyþór Einarsson og Árni Gunnarsson
Mynd/Fréttablaðið

Gallinn þekkist erlendis, til dæmis í Noregi og Írlandi. Samkvæmt írskri rannsókn frá sjöunda áratugnum kom fram að guli liturinn stafaði af efninu xanthophyll og sett var fram sú kenning að það sauðfé sem bæri gallann gæti ekki oxað efnið og umbreytt í A-vítamín.

„Muninn fékk ágæta notkun, en ætla má að hann hafi átt um 600 afkvæmi síðastliðið vor. Skráðir hafa verið dómar í Fjárvís.is á 234 afkvæmi hans. Ætla má að meirihlutinn af þeim séu lömb sem bændur hafa ætlað sér að setja á, enda kom hrúturinn glimrandi vel út úr skoðunum haustsins, eins og við mátti búast,“ segir Eyþór. „Ég reikna ekki með að gallinn sé mjög útbreiddur í stofninum í dag, þar sem fáar tilkynningar hafa borist um gula fitu á síðustu árum og að ekki skyldu þó koma fleiri slík tilfelli undan Munin.“

Hér á Íslandi rannsakaði búfræðingurinn Páll Zóphoníasson gallann um miðja síðustu öld en þá var hann talinn mikill skaðvaldur því að ekki var hægt að flytja slíkt kjöt út. Páll komst að því að gallinn væri víkjandi eftir að hafa rannsakað 17 sauðfjárbýli. Virðist sem gallinn hafi fyrst komið upp í Reykjarfirði við Djúp.

Ráðgjafarmiðstöðin hvetur bændur til þess að framrækta ekki þennan galla, það er að nota ekki afkvæmi Munins til ræktunar. „Það er tvennt í stöðunni. Að fella gripina eða, ef á að nota þá í framleiðslu, að setja að minnsta kosti ekkert á undan þeim,“ segir Eyþór. Hann segir að betra hefði verið ef þetta hefði uppgötvast áður en sláturtíð lauk, en myndin var að skýrast nú á allra síðustu dögum þannig að hægt væri að fullyrða að sterkar líkur séu á að Muninn bæri þennan erfðagalla.