Umhverfisstofnun fann tvo hluti sem erfitt hefur verið að bera kennsl á við vöktun á ströndinni í Bakkavík og biðlar til almennings að bera kennsl á hlutina. Stofnunin hóf að vakta rusl á ströndum sumarið 2016 og er vöktunin gerð samkvæmt leiðbeiningum OSPAR samningsins um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins.

Á hverri strönd er fyrir fram afmarkað svæði vaktað. Tilgangur vöktunarinnar er að finna uppruna rusls á ströndum, skoða hvaða flokkar rusls safnast mest fyrir, meta magn sem safnast fyrir yfir ákveðið tímabil og fjarlægja ruslið.

Hvað er hringlaga plastsekkurinn?

Sóley Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, fer fyrir verkefninu og segist hún reglulega finna rusl sem erfitt sé að bera kennsl á. Við vöktun á ströndinni Bakkavík þann 18. janúar síðastliðnn fann hún talsvert af dæmigerðu rusli fyrir þá strönd. Til dæmis sælgætisumbúðir, haglaskothylki, blautklúta, golfkúlur, afskurði af fiskinetum og óþekkjanleg plastbrot í ýmsum stærðum.

,,Svo fundust þessir tveir hlutir, glær hringlaga sekkur og rauður borði sem við vissum ekki alveg hvað er," segir Sóley.

Sóley Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.
Mynd/Aðsend

TikTok nammi?

Gerð var færsla á Facebook-síðu umhverfisstofnunar og önnur á heimasíðu stofnunarinnar þar sem almenningur var spurður hvort hann þekkti hlutina. ,,Við höfum komist að því að rauði borðinn ersvokallaður aðvörunarborði sem er lagður yfir háspennustrengi. Veitur sendu okkur skilaboð varðandi þetta en hvað hringlaga plasthluturinn er, það er ekki alveg komið á hreint," segir Sóley.

Á Facebook síðu Umhverfisstofnunnar hafa komið upp ýmsar hugmyndir um það hver plasthluturinn sé, svo sem rassaþota, stólpípa eða ,,skol annarra opa." Líklegast segir Sóley að hluturinn séu umbúðir af sælgæti sem vinsælt sé á tiktok.

Líklegt þykir að plastsekkurinn sem fannst í fjörunni sé utan af Jelly Fruit sælgæti sem hefur verið vinsælt á TikTok.
Mynd/Getty

Ef þú veist hver hluturinn er máttu senda skilaboð á ust@ust.is eða skilja eftir athugasemd á færsluna á Facebooksíðu Umhverfisstofnunar.