Tæknideild lögreglu fann útflattar blýkúlur í skrifstofuhúsnæði Samfylkingarinnar eftir skotárásina í síðustu viku. Blýkúlurnar eru líklega 22 kalíbera byssukúlur.
Mbl greindi fyrst frá og Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, staðfestir í samtali við Fréttablaðið.
Nánast óþekkt fyrirbæri á Íslandi
Aðkoman að skrifstofu Samfylkingarinnar síðasta föstudag var óskemmtileg en svo virðist sem óprúttnir aðilar hafi skotið á rúður á húsnæði flokksins á jarðhæði í Sóltúni 26 .
Árás af þessu tagi, þar sem skotið er á stjórnmálafólk eða höfuðstöðvar flokka, er nánast óþekkt fyrirbæri hér á landi. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem skotið er á heimili flokka. Eftir árásina á Sóltúni fundust einnig skotgöt í rúðum Valhallar, höfuðstöðva Sjálfstæðisflokksins. Sambærilega árás var gerð árið 2019 á skrifstofur Pírata og Viðreisnar.
Árásir á stjórnmálafólk er þó þekkt fyrirbæri hjá nágrannalöndum okkar og hefur færst í aukana með pólun í stjórnmálum (e. polarization).


Treystir lögreglunni til að taka þessu alvarlega
Karen segir starfið ganga sinn vanagang og að Samfylkingin haldi ró sinni og láti ekki ótta stjórna ferðinni.
„Við höfum aldrei tekist á við svona ógn á Íslandi áður. Við látum ekki ótta stjórna okkur en tökum þessu að sjálfsögðu alvarlega. Starfið heldur áfram og ég treysti lögreglunni fullkomlega til að taka alvarlega á þessu máli,“ segir Karen. Aðspurð segir hún flokkinn ekki hafa tekið ákvarðanir um sérstakar aðgerðir vegna árásarinnar.
