Annar loft­belgur, líkur þeim sem fannst svífa yfir Banda­ríkjunum á fimmtu­daginn, hefur fundist á sveimi yfir Suður-Ameríku. Banda­rísk stjórn­völd telja þetta kín­verskan njósna­loft­belg og hefur utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna, Ant­hony Blin­ken, hætt við fyrir­hugaða heim­sókn til Kína. CNN greinir frá.

Kín­verjar og Banda­ríkja­menn eiga nú í ill­deilum vegna kín­versks loft­belgs sem svífur yfir miðjum Banda­ríkjunum. Banda­ríkja­menn segja loft­belginn vera ætlaðan til njósna og að flug hans inni í banda­rískri loft­helgi sé skýrt brot á full­veldi Banda­ríkjanna.

Loft­belgurinn sást fyrst yfir Montana í norður­hluta Banda­ríkjanna á fimmtudag en er nú á flugi yfir miðju landinu. Kín­verjar hafa viður­kennt að loft­belgurinn sé frá þeim kominn en segja hann vera veður­belg sem hafi villst af leið sinni vegna ó­væntra vinda. Full­trúi utan­ríkis­ráðu­neytis Kína sagðist harma það að belgurinn hefði fyrir slysni ratað inn í banda­ríska loft­helgi.

Antony Blin­ken, utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna, hefur slegið á frest fyrir­hugaðri heim­sókn sinni til Kína vegna at­viksins. Á­ætlað var að hann legði af stað til Peking í gær­kvöld til að funda með kín­verska utan­ríkis­ráð­herranum Qin Gang og mögu­lega Xi Jin­ping for­seta Kína. Hann sagði á upp­lýsinga­fundi í gær að ekki væru að­stæður til upp­byggi­legra við­ræðna við kín­versk yfir­völd líkt og staðan sé nú.

„Ég átti sam­tal við Wang Yi, utan­ríkis­ráð­herra Kína, þar sem ég gerði honum ljóst að flug njósna­belgsins væri brot á bæði al­þjóða­lögum og full­veldi Banda­ríkjanna,“ sagði Blin­ken.

Banda­rísk yfir­völd hafa ekki úti­lokað að skjóta belginn niður, en hafa ekki gert það hingað til vegna ótta um að brak úr honum gætu fallið á fólk og mann­virki og valdið tals­verðum skaða.

Tals­maður utan­ríkis­ráðu­neytisins sagði í sam­tali við CNN í gær­kvöldi að varnar­mála­ráðu­neytið sé í óða önn að reikna út á­hættuna við að skjóta belginn niður, í sam­starfi við banda­rísku geim­ferða­stofnunina NASA.