Annar loftbelgur, líkur þeim sem fannst svífa yfir Bandaríkjunum á fimmtudaginn, hefur fundist á sveimi yfir Suður-Ameríku. Bandarísk stjórnvöld telja þetta kínverskan njósnaloftbelg og hefur utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Anthony Blinken, hætt við fyrirhugaða heimsókn til Kína. CNN greinir frá.
Kínverjar og Bandaríkjamenn eiga nú í illdeilum vegna kínversks loftbelgs sem svífur yfir miðjum Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn segja loftbelginn vera ætlaðan til njósna og að flug hans inni í bandarískri lofthelgi sé skýrt brot á fullveldi Bandaríkjanna.
Loftbelgurinn sást fyrst yfir Montana í norðurhluta Bandaríkjanna á fimmtudag en er nú á flugi yfir miðju landinu. Kínverjar hafa viðurkennt að loftbelgurinn sé frá þeim kominn en segja hann vera veðurbelg sem hafi villst af leið sinni vegna óvæntra vinda. Fulltrúi utanríkisráðuneytis Kína sagðist harma það að belgurinn hefði fyrir slysni ratað inn í bandaríska lofthelgi.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur slegið á frest fyrirhugaðri heimsókn sinni til Kína vegna atviksins. Áætlað var að hann legði af stað til Peking í gærkvöld til að funda með kínverska utanríkisráðherranum Qin Gang og mögulega Xi Jinping forseta Kína. Hann sagði á upplýsingafundi í gær að ekki væru aðstæður til uppbyggilegra viðræðna við kínversk yfirvöld líkt og staðan sé nú.
„Ég átti samtal við Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, þar sem ég gerði honum ljóst að flug njósnabelgsins væri brot á bæði alþjóðalögum og fullveldi Bandaríkjanna,“ sagði Blinken.
Bandarísk yfirvöld hafa ekki útilokað að skjóta belginn niður, en hafa ekki gert það hingað til vegna ótta um að brak úr honum gætu fallið á fólk og mannvirki og valdið talsverðum skaða.
Talsmaður utanríkisráðuneytisins sagði í samtali við CNN í gærkvöldi að varnarmálaráðuneytið sé í óða önn að reikna út áhættuna við að skjóta belginn niður, í samstarfi við bandarísku geimferðastofnunina NASA.