Meira en 3000 faldar grafir sem inni­halda fórnar­lömb eitur­lyfja­stríða í Mexíkó hafa fundist víðs­vegar um landið síðan að opin­ber nefnd á vegum ríkisins hóf leit. Um er að ræða fyrsta skiptið sem tekin eru saman gögn um fjölda slíkra graf­reita, að því er fram kemur ávef Guar­dian.

Þar kemur fram að 4874 lík hafi fundist á 3025 stöðum. Enn á eftir að nafn­greina fjölda fórnar­lamba, að því er haft er eftir Körlu Qu­intana sem fer fyrir nefnd hins opin­bera sem sett var á lag­girnar á síðasta ári til að að­stoða fjöl­skyldur fórnar­lamba við að finna fjöl­skyldu­með­limi sem hafa týnst.

„Þetta eru gögn hryllingsins,“ sagði Karla á blaða­manna­fundi á föstu­daginn. „Þetta snýst ekki um tölurnar. Þetta er um þær þúsundir fólks sem leita að ættingjum sínum og um þúsundirnar sem eru ekki heima hjá sér.“

Manns­hvörf hafa orðið æ al­gengari í landinu og of­beldið aukist og segir í um­fjöllun Guar­dian það mega rekja til að­gerða ríkis­stjórnar landsins árið 2006 þar sem hernum var beitt í auknum mæli gegn glæpa­gengjum.

Flest hvarfanna eru talin tengjast um­ræddum eitur­lyfja­gengjum en fram kemur að erfitt sé að meta hver standi að baki manns­hvörfum, meðal annars þegar 43 kennara­nemar hurfu spor­laust í septem­ber 2014.