Karlmaður hlaut í síðustu viku fjögurra mánaða fangelsidóm, skilorðsbundin til tveggja ára, í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa í vörslum sínum samtals 2.230 teiknaðar myndir og 42 teiknuð myndskeið sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt.

Myndefnið, sem var af afar grófu tagi, fannst í farsíma og fartölvu mannsins, en lögregla lagði hald á það við húsleit á heimili mannsins á Hverfisgötu.

Maðurinn, sem játaði brot sín skýlaust, hafði hlotið dóm árið 2020 fyrir blygðunarsemisbrot. Þá hlaut hann þriggja mánaða skilorðsbundin dóm.

Í dómnum er tekið fram að „þrátt fyrir að um sé að ræða teiknaðar myndir og myndskeið ber að líta til þess að markmið refsinga fyrir vörslur á efni af þessu tagi, sem sýnir börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, er að styrkja vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun, m.a. í tengslum við gerð slíks efnis.“

Þá segir að efni af þessu tagi geti hvatt til brota gegn börnum jafnvel þó það beinist ekki í reynd gegn barni. Auk þess kemur fram að efnið í þessu máli hafi verið af „afar grófu tagi“.

Líkt og áður segir hlaut maðurinn fjögurra mánaða skilorðsbundin dóm, en honum er einnig gert að sæta umsjón hjá úrræðinu Taktu skrefið.