Spænsk yfirvöld hafa til rannsóknar bréfbera sem sakaður er um að hafa safnað 20 þúsund óafhentum bréfum heima hjá sér, en þessi bréf áttu að fara til íbúa Alicante á Spáni. Elstu bréfin eru talin vera frá árinu 2012. The Guardian greinir frá þessu.
Bréfberinn, sem vann alla virka daga mætti í vinnuna og sótti þar poka af bréfum sem átti að senda til heimila fólks á Alicante. Í staðinn fyrir að gera það tók hann pokana með sér heim og geymdi bréfin þar.
Bréfin fundust eftir að bréfberinn, sem er 62 ára, seldi húsið sitt í smábænum Biar á Spáni. Kaupendur hússins ætluðu að gera það upp og þegar verktakar mættu á staðinn fundu þau ruslapoka á víð og dreif um húsið.
Eftir ítrekaðar tilraunir til þess að fá manninn til þess að tæma ruslið úr húsinu gáfust verktakarnir upp og opnuðu ruslapokana. Í pokunum voru öll bréfin sem bréfberinn hafði sleppt við að bera út.
Grunur beindist strax að bréfberanum sem átti húsið, en hann hafði verið rekinn árið 2013 af pósthúsinu sem hann starfaði hjá. Ástæða uppsagnarinnar var að hann hafði verið óreglulegur í bréfburð sínum. Bréfberinn var handtekinn og sakaður um trúnaðarbrot í vörslu skjala.
Bréfin hafa verið afhent til pósthússins sem maðurinn vann hjá og þaðan verða þau send til dómsmálayfirvalda á Spáni. Bréfin verða líklegast, eftir áratug, afhend til réttmætra eigenda sinna.