Spænsk yfir­völd hafa til rann­sóknar bréf­bera sem sakaður er um að hafa safnað 20 þúsund ó­af­hentum bréfum heima hjá sér, en þessi bréf áttu að fara til íbúa Ali­cante á Spáni. Elstu bréfin eru talin vera frá árinu 2012. The Guar­dian greinir frá þessu.

Bréf­berinn, sem vann alla virka daga mætti í vinnuna og sótti þar poka af bréfum sem átti að senda til heimila fólks á Ali­cante. Í staðinn fyrir að gera það tók hann pokana með sér heim og geymdi bréfin þar.

Bréfin fundust eftir að bréf­berinn, sem er 62 ára, seldi húsið sitt í smá­bænum Biar á Spáni. Kaup­endur hússins ætluðu að gera það upp og þegar verk­takar mættu á staðinn fundu þau rusla­poka á víð og dreif um húsið.

Eftir í­trekaðar til­raunir til þess að fá manninn til þess að tæma ruslið úr húsinu gáfust verk­takarnir upp og opnuðu rusla­pokana. Í pokunum voru öll bréfin sem bréf­berinn hafði sleppt við að bera út.

Grunur beindist strax að bréf­beranum sem átti húsið, en hann hafði verið rekinn árið 2013 af póst­húsinu sem hann starfaði hjá. Á­stæða upp­sagnarinnar var að hann hafði verið ó­reglu­legur í bréf­burð sínum. Bréf­berinn var hand­tekinn og sakaður um trúnaðar­brot í vörslu skjala.

Bréfin hafa verið af­hent til póst­hússins sem maðurinn vann hjá og þaðan verða þau send til dóms­mála­yfir­valda á Spáni. Bréfin verða lík­legast, eftir ára­tug, af­hend til rétt­mætra eig­enda sinna.