Koníaksflöskur ætlaðar rússneska keisaranum, sem kafarar íslenska fyrirtækisins iXplorer fundu á botni Eystrasaltsins, hafa nú fengið nýtt hlutverk.

Tappað hefur verið á þær rúmlega hundrað ára gömlu koníaki frá sama framleiðanda.

Flöskurnar fundust um borð í flaki skipsins SS Kyros í Botníuflóa á 77 metra dýpi. Það var að bíða eftir leysingum vorið 1917 til að komast til Sankti Pétursborgar með farm þegar þýskur kafbátur sökkti því.

Um borð voru einnig teinar, skeifur og fleiri málmhlutir sem áttu að fara til rússneska hersins í fyrri heimsstyrjöldinni.

Þjóðverjar sökktu skipinu árið 1917
Mynd/Aðsend

Þegar skipinu var sökkt voru miklar væringar í Rússlandi og Nikulás II keisari farinn frá. Ári seinna var hann myrtur af bolsévíkum ásamt fjölskyldu sinni.

„Þjóðverjunum var alveg sama um koníakið en ekki um vistirnar fyrir rússneska herinn. Þess vegna sprengdu þeir skipið,“ segir hinn rússnesk-íslenski Max Mikhaylov, sem stýrir teyminu.

Hann segir að aðgerðirnar hafi verið mjög krefjandi, sjórinn aðeins 1 til 2 gráðu heitur, mikil drulla á botninum og lítið skyggni.

Max, hér lengst til vinstri ásamt teyminu sínu.
Mynd/Aðsend

Verkefnið var í undirbúningi í fimm ár áður en fyrstu flöskurnar voru sóttar árið 2019. Restinni náðu Max og félagar hans, sem koma meðal annars frá Danmörku, Svíþjóð og Hollandi, upp árið 2021.

Af 600 flöskum náðist að bjarga helmingnum, en aðeins 7 innihéldu ómengað koníak sem hægt var að selja. Max vissi ekki hvað hann átti að gera við tómu flöskurnar þannig að hann leitaði að uppruna þeirra og komst að því að þær komu frá norskri fjölskyldu í Bordeaux að nafni Hartmann.

Halfdan Hartmann hét sá sem sendi Nikulási keisara sendinguna sem aldrei barst og langafasonur hans, Kim Birkedal Hartmann, var enn að framleiða koníak.

„Ég hringdi í Kim og hann gat fundið upplýsingar um sendinguna í sínu skjalasafni,“ segir Max. Skipið festist í ís í desember árið 1916 og þann 19. maí var það sprengt af Þjóðverjum.

Unnt var að bjarga um 300 af 600 flöskum af koníaki og Benediktín-líkjör
Mynd/Aðsend

Flöskurnar hafa nú verið hreinsaðar og Hartmann-koníaki frá árinu 1910 tappað á þær. Merkingarnar eru sams konar og voru árið 1916.

Ýmislegt fleira fannst í flaki Kyros, svo sem lampar og ýmsar vélar sem áttu að fara til keisarahallarinnar samkvæmt skipsbókinni. Max segist vonast til þess að geta sýnt þessa muni á Íslandi bráðlega, hugsanlega í Hörpu.

Þá segir hann að iXplorer hafi hug á því að gera fleiri kannanir á Íslandi. Við strendur Íslands séu um 4 þúsund flök. „Við finnum sennilega ekki gull eða gimsteina, en ábyggilega verðmæta sögulega muni,“ segir hann.

Flaskan í myndarlegum gjafakassa
Mynd/Aðsend