Enginn fundur var haldinn í kjaradeilu SGS (samflot iðn- og tæknimanna) og Samtaka atvinnulífsins í dag eins og til stóð en honum var frestað til morguns að beiðni ríkissáttasemjara.

„Ég tók þá ákvörðun í morgun að höfðu samráði við samningsaðila að tími þeirra nýttist betur ef að þeir myndu funda á sínum heimavelli. Það verðu sameiginlegur fundur hér klukkan 13:00 á morgun en ekki í dag,“ sagði Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari sem sagði þó að mikil vinna myndi fara fram á heimavöllum samningsaðila.

„Stundum er gott að brjóta hlutina aðeins upp og gera hlutina aðeins öðruvísi,“ sagði Aðalsteinn.

Fjórir hlutir sem horft er til.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins kvaðst hvorki bjartsýn eða svartsýnn fyrir fundinn á morgun.

„Já og nei, ég skal alveg fúslega viðurkenna það ég veit ekki nákvæmlega hvort okkur takist að ganga frá þessu, það verður bara að koma í ljós. Það er svo erfitt að úttala sig um hlutina á meðan að þeir liggja ekki fyrir,“ sagði hann í samtali við Fréttablaðið og ítrekaði að ekkert væri staðfest fyrr en búið væri að skrifa undir. „Að gefinni reynslu er ekkert fast í hendi fyrr en búið er að setja nafn sitt undir þann kjarasamning sem er gerður. Hvort það takist er ómögulegt að segja til um.“

Vilhjálmur segir skammtímasamninga fýsilegasta fyrirkomulagið eins og stendur. Hann kveðst hvorki bjartsýnn né svarstýnn fyrir fundinn á morgun.
Fréttablaðið/Anton Brink

Eins og fram hefur komið horfa flestir samningsaðilar til þess að gerðir verði skammtíma samningar sem gilda myndu út árið 2023. Vilhjálmur telur að fjögur meginatriði stuðli að því að stuttur samningur sé hentugasta fyrirkomulagið.

„Það er í fyrsta lagi að koma launahækkunum til fólksins hratt og vel,“ sagði Vilhjálmur.

„Í öðru lagi þá viljum við fá að sjá á næstu tólf mánuðum hvernig verðbólgan og vextir þróast. Það skiptir okkur gríðarlega miklu máli að fá að sjá hvort verðbólgan fari hér niður og við náum að verja kaupmátt fólksins með því að hér verði verðstöðugleiki,“ sagði Vilhjálmur en Seðlabankastjóri Íslands hækkaði nýverið stýrivexti í sex prósent.

„Í þriðja lagi liggur fyrir að sex hundruð þrjátíu og fjórir milljarðar liggja í húsnæðisskuldum heimilanna sem eru með svokallaða fasta vexti. Þessi snjóhengja sem ég kalla mun losna á næstu 12 til 24 mánuðum. Þá umbreytast fastir vextir yfir í breytilega vexti sem mun þýða tugþúsund greiðslubyrði hjá þeim sem þarna eru undir og það eru tugir þúsunda heimila,“ sagði Vilhjálmur en mörg heimili kusu að festa vexti sína á tímum faraldursins og þeirra efnahagsvandræða sem honum fylgdu. Þær festingar muni breytast á næstu misserum.

„Fjórða atriðið er svo óvissan sem ríkir erlendis, varðandi kostnaðarhækkanir sem eru að koma þaðana. Allt þetta skiptir gríðarlega mikllu máli,“ sagði Vilhjálmur sem ábyrgðina að ná kjarasamningum mikla enda margir félagsmenn sem hafi orðið fyrir gríðarlegum kostnaðarhækkunum.

„Ég veit að fólk átti erfitt með að ná endum saman en það er nánast að verða útilokað hjá lágtekjufólki í dag að geta framfleytt sér frá mánuði til mánaðar.“

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Fréttablaðið/AntonBrink

Vilja forðast íhlutun Seðlabankans

„Kjarasamningsviðræður eru flókið ferli, allir eru að funda hér og þar og tala við sitt bakland, en ég geri fastlega ráð fyrir að vera kallaður á fund á morgun“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins þegar í ljós var komið að fundinum hefði verið frestað.

Aðspurður um það hvort skammtímasamningar sé það sem allir samningsaðilar séu að leitast eftir sagði Halldór það ekkert launungsmál að svo sé. Það sé mikil óvissa í hagkerfinu eins og stendur.

„Hugsunin hefur verið þessi, þar sem við erum í háu verðbólguumhverfi, að fara inn í kjarasamninga án þess að Seðlabanki Íslands þurfi að bregðast við. Það er nálgunin sem við höfum verið í og munum halda okkur þar,“ Sagði Halldór Benjamín.