Fundi verkalýðsfélaganna hjá ríkissáttasemjara lauk nú fyrir stuttu. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissáttasemjara stendur fjölmiðlabann enn yfir og því ekki hægt að veita efnislegar upplýsingar um það sem fór fram á fundinum í dag. Ekki hefur verið ákveðin nákvæm dagsetning fyrir næsta vinnufund en ríkissáttasemjari mun þó vera í sambandi við alla viðkomandi aðila á morgun. Fyrirhuguð verkföll standa því og hefjast á miðnætti. 

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir í samtali við Fréttablaðið að fundi verkalýðsfélaganna hjá ríkissáttasemjara hafi lokið um klukkan átta.

Geturðu sagt mér eitthvað um fundinn í dag?

„Ég má ekkert ræða um innihald þess sem við erum að ræða, það eru skýr fyrirmæli frá ríkissáttasemjara og maður verður að sjálfsögðu að virða það,“ sagði Vilhjálmur í samtali við Fréttablaðið rétt eftir klukkan átta í kvöld.

Vilhjálmur sagði að það hefði verið farið yfir hlutina í dag á fundinum og þeirri vinnu yrði haldið áfram síðar. Hann sagði að ekki væri búið að ákveða næsta fund.

„Það eru verkföll á morgun þannig það verða margir fastir í því,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir að þau hlýði fyrirskipunum ríkissáttasemjara með framhaldið

„Hún stjórnar þessu með harðri, en góðri hendi,“ segir Vilhjálmur.

En það hefur ekkert breyst með verkföll, þau standa á morgun?

„Nei, það hefur ekkert breyst,“ segir Vilhjálmur að lokum.

Verkföll Eflingar og VR ná samtals til um tvö þúsund félagsmanna þeirra sem starfa á hótelum og hjá hópbifreiðafyrirtækjum. Verkföllin ná alls til um 40 hótela á félaggsvæði beggja verkalýðsfélaga auk þeirra félagsmanna sem starfa hjá hópbifreiðafyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu.

Ljóst er að aðgerðirnar munu hafa víðtæk áhrif í samfélaginu, á bæði ferðaþjónustu og aðra. Tilkynnt var í kvöld að enginn skólaakstur verði í Reykjavík á morgun og að víða muni falla niður sundkennsla.

 Sjá einnig: Enginn skóla­akstur í Reykja­vík vegna verk­falls

Fréttin hefur verið uppfærð.