„Þetta var ekkert halelúja,“ segir Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, um þingflokksfund Sjálfstæðismanna fyrr í kvöld, þar sem til umræðu var fyrirhugað frumvarp ríkisstjórnarinnar um heimildir ráðherra til að mæla fyrir um hertar aðgerðir á landamærum.

Fyrirhugaðar lagabreytingar fóru til kynningar í þingflokkum meirihlutans í kvöld, enda forsenda breytinganna að meirihluti þingsins styðji þær. Var málið afgreitt úr öllum þingflokkum stjórnarflokkana þriggja.

Af hljóðinu í Birgi Ármannssyni að ráða var þó ekki einhugur í sjálfstæðismönnum um málið.

„Það eru einhverjir þingmenn sem gera fyrirvara við málið og það kemur bara í ljós á morgun hverjir það eru, þegar málið kemur til umræðu í þinginu,“ segir þingflokksformaðurinn.

„Það eru einhverjir þingmenn sem gera fyrirvara við málið og það kemur bara í ljós á morgun hverjir það eru.“

Einhugur í VG og Framsókn

Það voru forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra sem kynntu málið í sínum þingflokki.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Willum Þór Þórsson eru formenn sinna þingflokka. Einhugur er um frumvarp heilbrigðisráðherra í þeirra röðum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari.

„Við fórum ítarlega yfir þetta og það eru allir á því að þetta sé það sem þurfi að gera núna,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna. Einhugur sé um málið í þingflokknum.

„Við fögnum þessu og ánægð að fá þetta inn.“

Þingflokkur Framsóknarflokksins er einnig einhuga um fyrirhugaðar lagabreytingar.

„Við fögnum þessu og ánægð að fá þetta inn,“ segir Willum Þór Þórsson formaður þingflokks Framsóknarflokksins.

Frumvarpið verði að lögum á morgun

Willum segist gera ráð fyrir að hið fyrirhugaða frumvarp verði að lögum strax á morgun, en um bráðabrigðaákvæði við sóttvarnalög er að ræða. Mælt verði fyrir því að loknum óundirbúnum fyrirspurnatíma og það gangi svo til nefndar og verði tekið þar til umfjöllunar og afgreiðslu.

Verði þetta raunin má búast við því að greidd verði lokaatkvæði um frumvarpið síðdegis á morgun eða annað kvöld.

Breytingar á sóttvarnalögum og útlendingalögum

Frumvarpinu var dreift rafrænt á vef Alþingis nú fyrir stundu. Um er að ræða frumvarp um tvennskonar breytingar, báðar tímabundnar.

Sóttvarnalög: Skylda til dvalar í sóttvarnahúsi

Annars vegar bráðabrigðaákvæði við sóttvarnalög sem kveður á um að á tímabilinu 22. apríl til og með 31. júní 2021, verði ráðherra heimilt með reglugerð að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, að skylda ferðamann sem kemur frá eða hefur dvalið á hááhættusvæði eða fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um svæðið, að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi.

Gert er ráð fyrir að sóttvarnalækni verði heimilt að veita undanþágu frá þessari skyldu, geti ferðamaður sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar í húsnæði á eigin vegum. Umsókn um undanþágu skuli hafa borist sóttvarnalækni tveimur sólarhringum fyrir komu til landsins en við mat á því hvort hana skuli veita beri að líta til nýgengi smita á viðkomandi svæði eða landi sem ferðamaður kemur frá eða hefur dvalið í.

Miðað er við að ráðherra birti lista yfir svæði og lönd sem talin eru sérstök hááhættusvæði að undangenginni tillögu sóttvarnalæknis. Listinn skuli uppfærður á tveggja vikna fresti.

Útlendingalög: Bann við komu til landsins

Hins vegar er í frumvarpinu kveðið á um breytingu á útlendingalögum og lagt til að dómsmálaráðherra verði heimilt, á tímabilinu 22. apríl til og með 30. júní 2021, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, með reglugerð, að kveða á um að útlendingum sem koma frá eða dvalið hafa á hááhættusvæði sé óheimilt að koma til landsins þrátt fyrir að þeir uppfylli almenn komuskilyrði laga þessara og reglugerðar um för yfir landamæri. Í reglugerðinni er heimilt að kveða á um undanþágur frá banni við komu til landsins, meðal annars vegna búsetu hér á landi og brýnna erindagjörða. Ákvæðið gildi einnig um útlendinga sem koma frá svæðum sem ekki liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar um.

Í báðum tilvikum er um bráðabrigðaákvæði að ræða sem gilda eiga til 30. júní.